Skrifar bók um horfna Íslendinga
Greinin birtist fyrst í Jólablaði Vikudags sem unnið var af nemum í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri.
Bókin „Saknað - Íslensk mannshvörf“ kom út þann 21. nóvember síðastliðinn og fjallar um mál þeirra íslendinga sem hafa horfið frá því snemma á 20. öld og fram til ársins 2019. Höfundur bókarinnar, Bjarki H. Hall, hefur síðastliðin ár safnað að sér gögnum um mannshvörf á Íslandi og er þetta hans fyrsta bók. Áhugi Bjarka á mannshvörfum kviknaði í æsku en það var svo ekki fyrr en árið 2017 sem Bjarki fór markvisst að safna gögnum um íslensk mannshvörf.
“Ég verð fyrir því óláni að detta og fótbrjóta mig illa og ég þurfti að taka mér frí frá vinnu. Þá hafði ég svosem ekki mikið að gera. Það vildi svo til að þetta var í nóvember 2017 og það var verið að leggja lokahönd á drög að endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmála,“ segir Bjarki, en hann las öll þau gögn sem hann komst yfir um málið og fór í kjölfarið að safna upplýsingum um önnur mannshvörf. „Ég var þá kominn með góðan slatta af tölulegum upplýsingum og fór að spá svona, til hvers er ég að þessu?“ Með þeim gögnum sem hann hafði safnað stofnaði hann Facebook síðuna Íslensk mannshvörf og síðar vefsíðuna mannshvorf.is. Eftir fjölda áskoranna ákvað hann síðan að gefa út bók.
Mannshvörf í 100 ár
Í bókinni er fjallað um fjölmörg mannshvörf sem hafa átt sér stað á Íslandi frá 1920 til 2019 og er enn fleiri að finna á vefsíðu hans mannshvorf.is. Nú telur síðan 114 einstaklinga í heild sem hafa horfið yfir um hundrað ára tímabil víðsvegar um landið. Mun fleiri mannshvörf eiga sér stað á fyrri helming tuttugustu aldar heldur en þeim seinni og segir Bjarki að það megi að einhverju leyti skýrast af því að hægt hafi verið að auglýsa eftir fólki með markvissum hætti eftir því sem fjölmiðlar urðu fleiri og stærri. Einnig hafi oft tekið lengri tíma fyrir aðstandendur að átta sig á því að einstaklingur væri horfinn. „Samskipti voru stopulli, í sumum tilfellum voru þetta einstaklingar sem voru ættaðir af landsbyggðinni en voru búsettir í Reykjavík vegna vinnu þannig að þeirra var kannski ekki saknað strax,“ segir Bjarki.
Hefði mátt rannsaka betur
Bjarki telur að ástæða sé til þess að fleiri mál hafi mátt rannsaka eins og um saknæmt athæfi hafi verið að ræða. Aðstandendur saknaðra einstaklinga fengu misjafnar viðtökur frá lögreglu áður fyrr að sögn Bjarka og eru dæmi um að ekki hafi verið tekið mark á þeim sem gáfu sig fram við lögreglu með hugsanlega vitneskju um málin. Um mál sem átti sér stað fyrir 1980 segir hann að „í einu tilfellinu kemur einstaklingur sem þekkti viðkomandi til lögreglu og sagðist vera með vitnisburð sem gæti mögulega skipt einhverju máli og þeir vildu ekki einu sinni heyra vitnisburðinn. Þeir sögðu bara að þeir þyrftu ekki á honum að halda.“ Hann bætir við að viðmót lögreglu hafi sem betur fer breyst síðan. áður fyrr hafi fólk hugsanlega forðast það að gefa sig fram við lögreglu með vitneskju um mál því það hafi haft minni tilhneigingu til þess að skipta sér af málum sem þessum. „Það hefur náttúrulega svo mikið breyst varðandi þöggun. Einstaklingar í samfélaginu í dag eru miklu opnari varðandi umræðuna í flestum tilfellum heldur en þetta var.“
Horfnir Akureyringar
Á vefsíðu Bjarka má finna átta mannshvörf sem áttu sér stað á Akureyri. Af þeim málum segir hann að þau séu fæst með þeim hætti að hægt hafi verið að eltast við þau eins og um eitthvað saknæmt hefði átt sér stað miðað við þær upplýsingar sem hann hefur í höndum.
Eitt mál þyki honum þó að vert hafi verið að rannsaka betur og er það mál Árna Ólafssonar sem hvarf 19. desember árið 1946. Bjarki fjallar ítarlega um það mál í bókinni. „Það er vitað að hann kom í hús í Strandgötu, heimsótti kunningjafólk sem bjó þar. Síðan er ekkert vitað um ferðir hans og það fengust í rauninni aldrei neinar upplýsingar frá þeim sem bjuggu að Strandgötu hvað hafði gerst.“ Bjarki segir að stutt leit hafi verið gerð að Árna strax eftir hvarfið en henni hafi hugsanlega verið hætt vegna snjóþunga og áform hafi verið um að halda áfram þegar voraði. Ættingjar Árna hafi hins vegar haldið leitinni áfram og voru ekki sátt við málalyktir. Það sem Bjarka þykir hvað undarlegast við málið er hve lítið er vitað um það hvenær eða hvort Árni hafi farið frá kunningjafólki sínu að Strandgötu. „Það sem sérkennilegt þótti var að hatturinn hans fannst hjá þeim og þetta var eitthvað sem hann skildi aldrei við sig. Hann fór ekki út án þess að setja á sig hattinn. Aldrei,“ segir Bjarki og bætir því við að hann viti ekki til þess að lögregla hafi ekki gengið sérstaklega á eftir útskýringum íbúa Strandgötu. „Það virðist ekki vera. Og ekkert sem kom út úr því þá.“
Margar spurningar
Bjarki vonast til þess að með bókinni og vefsíðunni sé vakin athygli á málum horfinna einstaklinga. Eftir að hafa skoðað allar þær upplýsingar sem honum hafa borist hafið vaknað upp margar spurningar og segist hann að gott væri ef í kjölfar umfjöllunarinnar fengju einhverjir svör um örlög ástvina sinna en að hann segist hins vegar gera sér hóflegar væntingar um það. Hann mun áfram halda úti vefsíðunni mannshvorf.is og hvetur fólk til þess að hafa samband með hverskonar upplýsingar. „Ég tek fagnandi öllum upplýsingum, hversu lítilvægar sem þær eru,“ segir Bjarki og bætir við að „Markmiðið er aðallega það að þessi mál gleymist ekki og þeir einstaklingar sem standa þar að baki.“
-HHD