20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Gjaldfrjáls leikskóli dregur úr álagi og bætir líðan barna
Gjaldfrjáls leikskóli hefur reynst áhrifarík leið til að draga úr álagi í leikskólum, á skólastjórnendur og starfsfólk og hefur jákvæð áhrif á börnin.
Þetta kemur fram í rannsókn sem óháðir rannsóknaraðilar, Anna Elísa Hreiðarsdóttir, lektor við HA, og Svava Björg Mörk, lektor við HÍ, framkvæmdu á starfsumhverfi leikskóla hjá Akureyrarbæ eftir gjaldskrárbreytingar. Breytingarnar, sem fela í sér gjaldfrjálsan sex tíma leikskóla á skólatímanum frá kl. 8-14 og tekjutengdan afslátt af skólagjöldum utan þess tíma, tóku gildi 1. janúar 2024.
Bugun komin í hópinn
Í rannsókninni kemur fram að rúmlega 80% stjórnenda og yfir 74% starfsfólks upplifa breytingarnar jákvæðar. Fram kemur hjá Önnu Elísu á vefsíðu Akureyrarbæjar að álag hafi verið mikið og ákveðin bugun komin í hópinn, fólk hafi verið uppgefið líkamlega og andlega. „Stjórnendur voru stöðugt að róa lífróður og leið ekki vel. Vinnustyttingin hafði líka verið íþyngjandi, en eftir breytingarnar hefur hún gengið betur upp,“ segir Anna Elísa.
Yfir 90% skólastjóra, 83% deildarstjóra og 73% starfsfólks sögðu breytingarnar hafa mikil eða frekar mikil áhrif á börnin. Unnið var að því að fá foreldra í rýniviðtöl, bæði í gegnum foreldraráð og foreldrafélög skóla, en illa gekk að fá þátttakendur, og fá mættu í þau viðtöl sem boðið var upp á.