20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Hver grípur þig?
„Við vildum að fólk gerði sér grein fyrir hvaða þjónusta er í boði og hvert er hægt að sækja hana þegar aðstoðar er þörf, fólki að kostnaðarlausu. Einnig langar okkur með málþinginu að styrkja samstarfið á milli félaganna, að fulltrúar þeirra séu upplýst um aðra kosti sem eru í boði fyrir fólk og geti bent málum í réttan farveg eða til viðeigandi félagasamtaka,“ segir Erla Lind Friðriksdóttir um málþing sem hún stendur fyrir ásamt frænku sinni Birnu Guðrúnu Árnadóttur.
Það voru þó ekki fjölskyldutengslin sem leiddu þær saman í þetta verkefni. Erla og Birna eru báðar í meistaranámi í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri, þar sem þær sitja námskeiðið Sálræn áföll og ofbeldi og er málþingið lokaverkefni þeirra í námskeiðinu.
„Við höfðum frjálsar hendur með að útfæra lokaverkefnið og skil á því. Við Birna ræddum þetta og vorum sammála um að þörf væri á að varpa ljósi á það sem er í boði á Akureyri. Það er nefnilega þannig að hér er í boði mikið af þjónustu í boði félagasamtaka og að okkar mati má alveg lyfta því upp,“ segir Erla um ástæðuna fyrir málþinginu.
Erla ólst upp í Hörgársveit og Birna á Ólafsfirði og búa báðar í dag á Akureyri. Þær hafa báðar menntað sig við Háskólann á Akureyri og eru þaðan með BA gráðu í sálfræði. Erla bætti svo við sig viðbótardiplómu í heilbrigðisvísindum með áherslu á geðheilbrigði og Birna bætti við sig meistaranámi í menntunarfræðum. Erla er í dag ráðgjafi hjá Berginu Headspace sem er úrræði fyrir ungt fólk til þess að koma og fá ráðgjöf, nærveru og spjall. Birna vinnur hjá Bjarmahlíð sem er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis.
„Þegar fólk er á þeim stað í lífinu að sjá ekki út úr augum vegna þess að það er að takast á við erfiðleika og allt er dimmt þá er svo mikilvægt að öll viti að hægt er að leita til þessara félagasamtaka sem hvert um sig hefur ákveðnar lausnir og markhóp. Það er hægt að koma til okkar, við erum hér til að hjálpa og eftir því sem við tengjumst hvert öðru betur, því betri verðum við í að benda fólki á hvar það getur leitað sér aðstoðar.“ Segir Birna enn frekar um málþingið og bætir við: „Þetta eru öruggir staðir til að leita á, fólk þarf ekki að vera eitt, við erum hér til að hjálpa og við vitum hvaða lausnir eru í boði og aðstoðum fólk við að finna leiðir.“
Málþingið sem um ræðir ber yfirskriftina „Hver grípur þig? Frí þjónusta á Norðurlandi“ þar sem Bjarmahlíð, Bergið Headspace, Aflið, Kvennaathvarfið, Frú Ragnheiður, Píeta og Grófin Geðrækt kynna starfsemi sína. Málþingið er mánudaginn 25. nóvember og markar sá dagur einnig upphaf 16 daga átaks gegn ofbeldi. Málþingið er haldið í Hátíðarsal Háskólans á Akureyri og hefst dagskrá klukkan 12:00 og er áætlað að henni ljúki klukkan 16:00. Þá verður einnig hægt að fylgjast með í streymi fyrir þau sem ekki eiga heimangengt. Hægt er að finna frekari upplýsingar um viðburðinn á Facebook og einnig á heimasíðu Háskólans á Akureyri.
„Við erum báðar af svæðinu og viljum halda áfram að byggja upp þessa þjónustu fyrir Norðurlandið því það er svo mikilvægt að þjónustan sé sem allra nálægust til að grípa fólk sem er að fallast hendur við að leita í kerfinu að úrræðum,“ segir Birna að lokum og Erla tekur undir: „Við sjáum líka strax að umfjöllunin er að skila sér, daginn eftir að við settum viðburðinn í loftið hafði kvenfélagið Hjálpin samband við okkur og munu styrkja hvert félag um 110 þúsund krónur og þær völdu þessa upphæð því í ár verður félagið 110 ára.
Við vonumst til að sjá sem allra flest á mánudaginn kemur uppi í Háskólanum á Akureyri eða á skjánum því málþinginu er einnig streym