Dásamlegt og gefandi að starfa í kvenfélagi

Auður Thorberg formaður kvenfélagsins Hjálparinnar kom færandi hendi og afhenti þeim Birnu Guðrúnu Á…
Auður Thorberg formaður kvenfélagsins Hjálparinnar kom færandi hendi og afhenti þeim Birnu Guðrúnu Árnadóttur hjá Bjarmahlíð og Erlu Lind Friðriksdóttur hjá Berginu Headspace styrk frá Hjálpinni.

„Það er dásamlegt að starfa í kvenfélagi. Þetta er yndislegur félagsskapur,  gefandi á allan hátt. Við skemmtum okkur vel, látum gott af okkur leiða en vinnum okkar verk yfirleitt í hljóði og erum ekki að auglýsa það sérstaklega þó við gerum góðverk,“ segir Auður Thorberg formaður Kvenfélagsins Hjálparinnar í Eyjafjarðarsveit.

Félagið varð 110 ára gamalt á árinu og hélt upp á tímamótin með því að styrkja 10 samtök um 110 þúsund krónur hvert, samtals 1.100.000 krónur. „Við ákváðum að einbeita okkur að þessu sinni að samtökum sem veita ókeypis þjónustu á Norðurlandi,“ segir Auður, en kvenfélagskonur rákust á opið málþing sem haldið verður í Háskólanum á Akureyri næstkomandi mánudag, 25. nóvember  með yfirskriftinni; Hver grípur þig? Frí þjónusta á Norðurlandi.

Fögnum afmælinu með gjöf til samfélagsins

Málþingið hefst á upphafsdegi 16 daga átaks gegn ofbeldi. Samtökin sem þar kynna starfsemi sína og eru þau sömu og fengu styrk Hjálparkvenna eru; Aflið, Bergið Headspace, Bjarmahlíð, Grófin geðrækt, Kvennaathvarfið, Frú Ragnheiður og Píeta samtökin. Auk þeirra styrkir kvenfélagið Hjálparsveitina Dalbjörgu í Eyjafjarðarsveit, Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis og Velferðarsjóð Eyjafjarðar. Hugmyndin kom fram á hrekkjavöku samkomu Hjálparkvenna í lok október.

„Með því að veita þessum ágætu félögum á okkar starfssvæði styrki fögnum við afmælinu okkar og vekjum í leiðinni athygli á því góða starfi sem kvenfélög um land allt sinna. Við viljum leggja okkar af mörkum til þeirra samtaka sem gera okkar nærsamfélag í Eyjafirði betra og hvetjum aðra til að styrkja þau líka,“ segir Auður.

Fyrsta verkefnið að ráða hjúkrunarkonu

Kvenfélagið Hjálpin var stofnað árið 1914 í Saurbæjarhreppi sem þá var, fremsti hreppur í Eyjafirði og segir Auður að konur hafi tekið sig saman og stofnað kvenfélagið í því skyni að safna fé svo unnt væri að ráða hjúkrunarkonu til starfa. Mikil veikindi hrjáðu íbúa hreppsins sem veitti ekki af aðstoð við að sinna sjúkum. „Það vantaði sárlega hjálp inn á heimilin og konur brugðust við neyðinni með því að stofna til þessa félags, nafnið er lýsandi fyrir hvað félaginu var ætlað að standa fyrir, Hjálpin.  Fyrsta verk kvennanna var að ráða hjúkrunarkonu til starfa sem fór á milli bæja og hjúkraði hinum sjúku,“ segir hún um fyrstu árin í starfi kvenfélagsins.

Kaffihlaðborð helsta tekjuöflunin

Kvenfélagið aflar tekna með því að halda kaffihlaðborg í Funaborg á Melgerðismelum tvisvar á ári og eru þau jafnan vinsæl og vel sótt að sögn Auðar. Félagskonur eru einnig af og til um erfidrykkjur í sveitarfélaginu eða aðrar samkomur þar sem fólk kemur saman. Þá halda þær jólaball fyrir sveitunga sína, einnig í Funaborg og er það hefð á mörgum bæjum að gera sér þar glaðan dag. Undirbúningur að næsta jólaballi sem verður 28. desember næstkomandi er þegar hafinn.

Kvenfélagskonur hafa einnig fyrir sið að færa einstæðingum í nær umhverfinu glaðning fyrir jólin, þar sem finna má smákökur, súkkulaði, kaffi og annað góðgæti sem flestir vilja hafa í handraðanum yfir hátíðarnar. „Þetta er liður í því að hlúa að því fólki sem okkur er mjög annt um,“ segir Auður.

Í kvenfélaginu Hjálpinni  eru alls 24 konur auk heiðurfélaga. Yngsta konan er 24 ára og sú elsta 76 ára, meðalaldur kvennanna er 48 ár. „ Við erum vinkonur, nágrannar, bekkjarsystur, systur og í félaginu starfa þrjú pör af mágkonur, þrjú pör af mæðgum og fimm pör af tengdamæðgum,“ segir Auður.  Félagið gaf út bókin Drífandi daladísir í tilefni af 100 ára afmæli sínu, en í henni er að finna myndir og upplýsingar um allar  félagskonurnar, 231 talsins,  ásamt sögu félagsins í máli og myndum.

Hjálparkonur gera ýmislegt sér til skemmtunar auk þess að leggja samfélaginu lið. Hér eru þær á ferðinni í Prag fyrr í haust.

Nýjast