Þakklæti er varla nægilega sterkt lýsingarorð

Alls söfnuðust 6,7 milljónir króna á Dekurdögum á Akureyri nú í október og voru peningarnir afhenti …
Alls söfnuðust 6,7 milljónir króna á Dekurdögum á Akureyri nú í október og voru peningarnir afhenti Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis við athöfn í Hofi. Dekurdagar hafa frá árinu 2012 safnað tæplega 38 milljónum króna sem runnið hefur til KAON.

„Ég þurfti að gera hlé á máli mínu því tárin bara runnu niður kinnarnar,“ segir Marta Kristín Rósudóttir verkefnastjóri hjá Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis. Dekurdagar afhentu félaginu alls 6, 7 milljónir króna og hefur upphæðin aldrei verið hærri en nú. Frá árinu 2012 hafa Dekurdagar safnað 37.850.000 kr. fyrir Krabbameinsfélag Akureyrar

Dekurdagar selja m.a. bleika slaufu og hafa viðbrögð verið mjög góð og vaxandi þátttaka bæði fyrirtækja og einstaklinga í að kaupa slíka slaufu og skreyta með henni utan við heimili eða vinnustaði. Vilborg Jóhannsdóttir kaupmaður í Centro fer nú fremst í flokki Dekurdagakvenna og hún hnýtti í alls 1000 slaufur nú í haust.

Þær bleiku setja svo sannarlega skemmtilegan svip á bæinn

Út og inn með firði

 Lionskonur í Eyjafirði tóku að þessu sinni þátt í sölu á slaufunum og fóru þær því víða um Eyjafjörð. Sem dæmi seldi Lionsklúbburinn Sunna á Dalvík slaufur fyrir vel yfir hálfa milljón, Lionsklúbburinn Sif í Eyjafjarðarsveit seld fyrir tæplega 1,1 milljón króna og Ragnhildur Vestmann seldi slaufur í Ólafsfirði fyrir 260 þúsund.

 Styrkurinn fæst að auki með þátttökugjöldum fyrirtækja og almennum styrkjum og ýmis fyrirtæki á svæðinu stóðu fyrir uppákomum þar sem fé var safnað og rann til söfnunarinnar.

„Þakklæti er varla nægilega sterkt lýsingarorð til að lýsa því hvað við erum þakklát fyrir stuðning Dekurdaga og þær frábæru konur sem hafa staðið á bak við þann viðburð og þær sem bætast hafa í hópinn. Við eru líka mjög þakklát fyrir þann stuðning sem við fáum úr okkar samfélagi, þetta er algjörlega ómetanlegt,“ segir Marta Kristín.

Skiptir okkur hjartans máli

Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis eru félagasamtök sem rekin eru fyrir almannaheillafé. Félaginu er því nauðsynlegt að hafa stuðning í heimabyggð, en Dekurdagar einu stærstu bakhjalar félagsins. „Dekurdagar hafa ekki aðeins gefið félaginu stuðning með fjárhagstuðningi heldur einnig með því að gera félagið sýnilegt sem skiptir okkur hjartans máli. Það að Dekurdagar nái að safna þessum háu fjárhæðum ár eftir ár tökum við alls ekki sem sjálfsögðu,“ segir Marta Kristín. Hún bætir við að verslunarfólk er mikið spurt út í bleiku slaufurnar af ferðafólki, bæði innlendu og erlendu. „Þetta átak vekur ótrúlega mikla athygli,“ segir hún að lokum og bendir á að hægt sé að fylgjast með Krabbameinsfélaginu á Facebook.

Vilborg Jóhannsdóttir kaupmaður í Centro fer nú fremst í flokki Dekurdagakvenna og hún hnýtti í alls 1000 slaufur nú í haust.

Nýjast