Settu upp tölvustofu í ABC skóla í Burkina Faso

Stórt skref inn í framtíðina fyrir nemendur ABC skólans að hafa aðgang að tölvu við nám sit    Myndi…
Stórt skref inn í framtíðina fyrir nemendur ABC skólans að hafa aðgang að tölvu við nám sit Myndir Adam Óskarsson

„Ferðin gekk vel í alla staði, markmiðið var vel skilgreint og við náðum að gera það sem við ætluðum okkur,“ segir Adam Ásgeir Óskarsson sem kom i byrjun vikunnar heim eftir ferð til Afríkuríkisins Burkina Faso.

 Adam Ásgeir Óskarsson að störfum við að setja upp tölvurnar

Þar setti hann ásamt ferðafélögum upp tölvustofu í Ecole ABC de Bobo sem er ABC skóli rekin í næst stærstu borg landsins, Bobo Dioulasso. Tölvunum hafði Adam safnað á Íslandi á liðnu ári, um 100 borðtölvum sem skipt var út í Verkmenntaskólanum á Akureyri fyrir fartölvur og þá fékk hann einnig tölvur, skjávarpa og fleira frá Sýn, Vodafone, Menntaskólanum í Tröllaskaga , Origo Lausnum, Sjúkrahúsinu á Akureyri, Gaflara og Tengi.

Tölvurnar voru settar í gám sem sendur var af stað til Burkina Fasio í fyrra og hélt Adam ásamt fleirum í fyrra haust í þeim tilgangi að setja tölvurnar upp. Seinkun varð á flutningnum og gámurinn ekki kominn þannig að farin var önnur ferð nú fyrri hluta febrúarmánaðar. Hann segir best henta Íslendingum að heimsækja landið frá hausti yfir veturinn því ella sé hitinn yfirþyrmandi. Í hópnum sem var á ferðinni nú voru fimm aðrir Íslendingar hjónin Jóhanna S. Norðfjörð og Haraldur Pálsson, sem beitt hafa sér fyrir uppbyggingu í ABC skólanum um árabil, Aðalgeir Sigurðsson, Jón Sverrir Friðriksson og Magnús Kristinsson rafeindavirki hjá Origo Lausnum í Reykjavík , en hinir frá Akureyri.

Settu upp gott innra net í skólanum

„Við tókum til starfa um leið og við komum og náðum að koma tölvunum upp ásamt því að setja upp gott innra net í skólanum. Það er enn vandkvæðum bundið að ná internetsambandi þarna en ég hef þá trú að styttist í það, þróunin í þessum málum er svo hröð,“ segir Adam. Hann telur að hugað verði að þeim málum jafnvel í næstu ferð, sem þó hefur ekki verið ákveðin enn. „Það má segja að fyrir nemendur skólans sé það bylting að hafa aðgang að tölvum og öflugu innra neti og er stórt skref inn í framtíðina. Það opnast ótal möguleikar sem ekki voru fyrir hendi áður, en tölvurnar sjálfar eru góðar og með fínum hugbúnaði.“

Lærdómsrík ferð

Adam segir það hafa verið virkilega lærdómsríkt að vera við störf í Burkina Faso og upplifa á eigin skinni hvernig lífið gengur fyrir sig þar. Landið sé eitt hið fátækast í heiminum með um 85%

atvinnuleysi og einungis um 20% íbúa þess eru læsir. Meðallaun eru um 300 krónur á dag. „Það er allt gjörólíkt því sem við eigum að venjast, allt annar bragur á öllu. Sem dæmi skortir mjög á að innviðir séu í lagi. Það má því segja að allt sé gjörólíkt því sem tíðkast hér hjá okkur.“

Í ABC skólanum eru um 1100 nemendur, hann er því álíka stór og VMA, en þar stunda nám börn á öllum aldri, frá 4urra ára upp í tvítugt, í leik- grunn- og framhaldsskóla. Útskriftarnemar sem halda áfram í háskólanám hafa fengið fartölvur að gjöf upp á síðkastið en Adam hefur haft forgöngu um söfnun þeirra á Íslandi. „Fyrir þau er það að eignast fartölvu og hafa með sér inn í háskólanám eitthvað sem er langt út fyrir þeirra drauma,“ segir hann.


 

Nýjast