Samningur um 1.500 fermetra nýbyggingu við VMA undirritaður
Ný viðbygging við Verkmenntaskólann á Akureyri og endurskipulagning á eldra húsnæði sem gerð verður í kjölfarið gerir aðstöðu verknámsbrauta skólans betri og nútímalegri sagði Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari VMA þegar samningur um byggingu 1500 fermetra nýbyggingar fyrir verknámsbrautir VMA var undirritaður. Nýbyggingin mun bæta úr aðkallandi húsnæðisþörf skólans. Ríkið greiðir 60% byggingarkostnaðar og sveitarfélög við Eyjafjafjörð, sjö talsins greiða 40% kostnaðar.
Nýbyggingin rís við norðausturhorn VMA og þangað mun nám í húsasmíði og bifvélavirkjun færast. Við það rýmkast um aðrar verknámsbrautir skólans og ekki vanþörf á því margar námsbrautir hafa lengi búið við afar þröngan kost í húsnæðismálum. Gert er ráð fyrir að rafiðnaðarbraut færist í núverandi húsnæði byggingadeildar, aðstaða námsbrautar í hársnyrtiiðn verður bætt sem og matvælabrautar og vélstjórnar, auk ýmissa annarra hrókeringa í núverandi húsnæði að því er fram kemur á vef VMA.
Sigríður Huld skólameistari sagði að lokinni undirritun samningsins að byggingarsaga skólans spanni ríflega fjóra áratugi og enn sé komið að byggingu nýrrar álmu sem verði afar kærkomin fyrir verknám skólans. Bindur hún vonir við að hratt og örugglega gangi að breyta núverandi húsnæði þannig að röskun á skólastarfi verði sem allra minnst.
Mikilvæg innspýting í skólasamfélagið á Akureyri
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra sagði saminginn hluta af átaki stjórnvalda til að bæta aðstöðu í framhaldskólum með iðn- og starfsnám með það að markmiði að geta tekið við fleiri nemendum á þessar námsbrautir. Gengið hefur verið frá fjármögnun. Samningurinn verður tekin fyrir hjá fjármálaráðuneyti og síðan hjá Framkvæmdasýslu sem hefur yfirumsjón með hönnun, en að henni lokinni verður verkið boðið út. Ráðherra telur að mál geti gengið hratt fyrir sig sér fyrir sig að hægt verði að taka fyrstu skóflustungu að nýrri byggingu snemma á næsta ári.
„Mikil eftirspurn er í starfsnám og þarf á hverju ári að vísa umsækjendum frá. Við erum með lægsta hlutfall nemenda á Norðurlöndum í starfsnámi. Samfélagið hefur tekið miklum breytingum og atvinnulífið kallar á iðnmenntað starfsfólk. Stækkun Verkmenntaskólans á Akureyri er mikilvægur áfangi í eflingu starfsnáms á Íslandi til að mæta þörfinni og mikilvæg innspýting í skólasamfélagið á Akureyri,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra í tilkynningu.
Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri talaði fyrir hönd sveitarfélaganna og sagði VMA gríðarlega mikilvægan fyrir svæðið, hróður hans hefði borist víða og skólinn þekktur. Með nýjum byggingarkafli muni skólinn halda áfram að eflast.
Viðvarandi skortur á starfsfólki
Öll skref sem stigin eru í á átt að efla verknám á Íslandi eru mikilvæg að því er fram kom í máli Sigurðar Hannessonar framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins. Um 50 þúsund manns starfa í iðnaði í landinu og mikill og viðvarandi skortur er á starfsfólki í þessum geira atvinnulífsins. Samkvæmt nýlegri könnun skorti fagmenntað starfsfólk hjá um helmingi aðildarfyrirtækja Samtaka iðnaðarins. Þetta sé staðan á sama tíma og þurfi að vísa frá árlega á milli 600 og 1000 umsóknum fólks í iðn- og starfsnám vegna þess að skólarnir hafi ekki möguleika á að taka við þeim.