NorðurHjálp - Leita að nýju húsnæði fyrir nytjamarkaðinn

Sæunn Ísfeld Guðmundsdóttir, Stefanía Fjóla Elísdóttir, Guðbjörg Thorsen en á myndina vantar Önnu Jó…
Sæunn Ísfeld Guðmundsdóttir, Stefanía Fjóla Elísdóttir, Guðbjörg Thorsen en á myndina vantar Önnu Jónu Viggósdóttur, en þessar fjórar konur standa að nytjamarkaðnum NorðurHjálp. Myndir: MÞÞ

„Það er sorglegt að þörfin í okkar góða samfélagi sé svona mikil,“ segir Sæunn Ísfeld Guðmundsdóttir ein þeirra vösku kvenna sem standa að markaðnum NorðurHjálp. Með henni eru þær  Guðbjörg Thorsen, Anna Jóna Vigfúsdóttir og Stefanía Fjóla Elísdóttir. Alla hafa þær að baki langa reynslu af sjálfboðaliðastörfum. Markaðurinn var opnaður í lok október, hefur starfað í þrjá mánuði og þegar úthlutað um 2,6 milljónum króna til þeirra sem minna mega sín á Akureyri og nærsveitum.

NorðurHjálp er til húsa í gamla hjálpræðishershúsinu við Hvannavelli og hefur hluta þess húss til afnota. Það er nú í eigu byggingafélagsins BB bygginga. Fyrirtækið hefur áform um að byrja á nýjum framkvæmdum á lóðinni með vorinu, þar eiga að rísa nýjar íbúðir og þarf markaðurinn því að finna sér nýjan stað. „Það lá alltaf fyrir að þetta væri tímabundin staðsetning, en við erum alveg á fullu að leita að nýju húsnæði. Það þarf að vera nokkuð rúmgott og aðgengi að því þarf að vera gott. Við erum opin fyrir öllu en auðvitað ber starfsemi eins og okkar sem byggist upp á sjálfboðaliðastarfi og að gefa alla innkomu fyrir utan leigu, ekki mjög háa leigu,“ segir Sæunn.

NorðurHjálp er til húsa í gamla hjálpræðishershúsinu við Hvannavelli

Hún segir að viðtökur við markaði NorðurHjálpar hafi farið fram úr allra björtustu vonum. Vissulega hafi þær stöllur átt von á að vel yrði tekið í nýjan nytjamarkað í bænum, „en engan óraði fyrir hversu vel þetta hefur gengið og hvað allir eru ánægðir,“ segir hún. „Við áttum von á góðum meðbyr en ekkert í líkingu við það sem raunin er.“

Þetta er yndislegt

Bæði segir hún að fólk hafi verið afar fúst að gefa allra handa varning á markaðinn og þar kenni svo sannarlega margra grasa, þarf sé nánast hægt að finna allt milli himins og jarðar. Margir komi sér til gaman að gramsa í því sem í boði er, aðrir að leita að ódýrum fatnaði, eldhúsdóti ýmis konar, leikföngum, bókum eða hverju sem er. „Svo höfum við þegar fengið góðan hóp fastagesta sem lítur inn í kaffi og kex, skoðar blöð og bækur og hefur það notalegt. Okkur þykir mjög vænt um það að vera nokkurs konar athvarf fyrir fólk í dagsins önn, hér staldrar það við og spjallar og hefur það gott í smástund. Þetta er alveg yndislegt. Okkur þykir vænt um alla sem til okkar koma, þá sem færa okkur vörur til að selja, þá sem kaupa og líta inn. Allir eru mikilvægir.

Sæunn segir að í vikunni hafi sem dæmi verið tekið á móti tveimur dánarbúum. Það sé því yfirleitt í mörg horn að líta. Eins hafi krakkar úr leikfélagi VMA komið í leit að einhverju sem nýta má í sviðsmynd næsta leikrits. „Það er alltaf eitthvað skemmtilegt í gangi og mikið um að vera, þetta gefur lífinu lit.“

  Á markaðnum kennir svo sannarlega margra grasa

Treystum fólki

Frá því starfsemin hófst hefur NorðurHjálp aflað ágætra tekna, en þegar hefur um 2,6 milljónum króna verið úthlutað til þeirra sem höllum fæti standa í samfélaginu. Hver og einn sem á þarf að halda sækir um og Sæunn segir að hjá þeim sé úthlutun höfð með gamla laginu, „við treystum fólki og eru ekki að krefja það um skattaskýrslur eða annað sem sanni fátækt þess. Þeir sem ekki eru með hreina samvisku verða þá bara að eiga það við sig en ég hugsa að 99% þeirra sem hafa óskað eftir okkar aðstoð hafi virkilega þurft á henni að halda,“ segir Sæunn.

Hún og hennar samstarfkonur eru hæst ánægðar og telja tíma sínum vel varið í störf við markaðinn. „Við erum þakklátar fyrir hversu vel gengur og samfélaginu sem hefur tekið svona vel á móti okkur,“ segir hún.

Nýjast