20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Miklar endurbætur á gömlu heimavist Þelamerkurskóla í gangi
Miklar framkvæmdir hafa verið í gangi í Hörgársveit undanfarin misseri sem miða að því að styrkja innviði sveitarfélags þar sem íbúafjölgun hefur verið mikil hin síðari ár. Gagngerar endurbætur standa yfir á gamla heimavistarhúsnæði Þelamerkurskóla og var nú við upphaf skólaárs tekið í notkun nýtt rými þar fyrir unglingadeild skólans. Áður eða í fyrrahaust var enn ein nýja byggingin tekin í notkun við Heilsuleikskólann Álfastein. Þar var horft til framtíðar, pláss er fyrir 90 börn en þau eru kringum 70 um þessar mundir. Stærstu vinnustaðir sveitarfélagsins eru í leik- og grunnskólanum, en þar eru starfsmenn nú samtals 51. Í Hörgársveit búa nú 866 íbúar og er að því stefnt að þeir verði 1001 í það minnsta um mitt ár 2026.
Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri segir að undanfarin ár hafi fólk sýnt mikinn áhuga á að flytja í Hörgársveit. Við því er brugðist með því að bjóða lóðir undir íbúðir einkum í þéttbýlinu á Lónsbakka. Þar hófst markviss uppbygging fyrri hluta ársins 2019 og hefur staðið óslitið síðan. Áhugi fyrir að byggja á Lónsbakka hefur síst minnkað og er nú verið að bregðast við með því að taka nýtt land undir íbúðir. „Við auknum mannfjölda í sveitarfélaginu þarf að auka við rými í skólunum. Við erum komin á gott ról með leikskólann og framkvæmdir við endurbætur og aukið rými í Þelamerkurskóla eru í fullum gangi,“ segir Snorri.
Nægt rými til staðar í leikskólanum
Hann segir mikinn metnað til að taka vel á móti nýjum íbúum sem og að gera vel við þá sem fyrir eru. „Við erum stolt af því hversu vel hefur gengið undanfarin ár að byggja upp gott skólastarf,“ segir Snorri.
Unnið hefur verið að endurbótum á Þelamerkurskóla síðastliðin tvö ár, tengibygging var reist milli skólans og heimavistarálmu árið 2022 og tekin í notkun á liðnu ári. Nú í upphafi nýs skólaárs var nýtt og glæsilegt rými tekið í notkun fyrir unglingadeild skólans sem nú hefur hreiðrað um sig í nýuppgerðu rými á þriðju og efstu hæð fyrrum heimarvistarinnar.Um 30 nemendur eru í unglingadeild Þelamerkurskóla, en 96 nemendur í allt stunda nám við skólann í vetur.
Áfram unnið að endurbótum
Snorri segir að áfram verði haldið við endurbætur og af nógu sé að taka. Nú í vetur standa yfir framkvæmdir á annarri hæð heimavistar en stefnt er því að taka það í notkun haustið 2025. Þar verður rými fyrir um 30 nemendur. Fleiri verkefni eru í farvatninu, en Snorri segir að í fyllingu tímans verði allt heimavistarhúsið tekið til gagngerra endurbóta. „Það á eftir að endurinnrétta íbúðar álmu sem var í heimavistinni en þar væri hægt að koma fyrir m.a. tónlistarkennslu og eins er horft til þess að gera nýja og betri aðstöðu fyrir starfsmenn skólans. Þá má nefna að við eigum eftir að endurhanna og innrétta að nýju rými fyrir félagsmiðstöð skólans sem er á neðstu hæð heimavistar. Þetta eru verkefni sem við eigum eftir að takast á við en fyrir liggur að verða unnin á næstu misserum,“ segir Snorri.
Mikil og góð breyting til batnaðar
„Þetta er gríðarlegur munur og mikil og góð breyting til batnaðar,“ segir Anna Rósa Friðriksdóttir skólastjóri Þelamerkurskóla sem líkt og unglingarnir sem stunda nám við skólann er himinsæl með nýtt húsnæði sem skólinn hefur fengið fyrir unglingadeildina í gamla heimavistarhúsnæðinu.
Anna Rósa segir að á liðnu skólaári hafi allir nemendur skólans verið við nám í sömu álmunni og vissulega hafi verið ansi þröngt um starfsemina. „Það hefur nú skapast meira rými í skólanum og vel fer um alla, í raun er þetta ótrúlegur munur sem við erum afskaplega þakklát fyrir,“ segir hún.
„Skólastarfið hefur farið vel af stað. Það er góður andi í skólanum og við hlökkum til komandi vetrar,“ segir Anna Rósa og bætir við að framkvæmdum sé ekki lokið. „Við fylgjumst spennt með framvindu verksins.“