Með ástríðu fyrir hljómsveitarstjórnun

Sóley Björk Einarsdóttir, stjórnandi blásarasveitarinnar. Mynd: IHJ
Sóley Björk Einarsdóttir, stjórnandi blásarasveitarinnar. Mynd: IHJ

Greinin birtist fyrst í Jólablaði Vikudags sem unnið var af nemum í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri.

Blásarasveit Tónlistarskólans á Akureyri fékk Sóley Björk Einarsdóttur sem stjórnanda fyrir rúmu ári síðan. Hún kynntist kærastanum sínum þegar þau voru í námi í Konunglega tónlistarháskólanum í Den Haag í Hollandi og fluttist með honum til Akureyrar að námi loknu. Á Akureyri fékk Sóley kennarastarf við bæði Tónlistarskólann á Akureyri og Tónlistarskóla Eyjafjarðar og sem stjórnandi blásarasveitarinnar.

Sóley er 25 ára, fædd og uppalin í Reykjavík og hefur alla tíð hrærst í tónlist. Foreldrar hennar spiluðu í lúðrasveit og ólst hún því upp við að bíða eftir þeim á æfingum og seinna meir að spila sjálf með. „Ég byrjaði að æfa á hljóðfæri þegar ég var sjö ára, ætlaði að læra á klarinett en kennarinn stýrði mér að trompet, sem hentaði mér mjög vel.“

Sóley er menntaður trompetleikari frá Konunglega háskólanum í Den Haag og lærði þar meðal annars hljómsveitarstjórnun sem er ein af hennar ástríðum í tónlist. Hún hafði ekki séð fyrir sér að fá starf á Íslandi að námi loknu en bauðst starf í Tónlistarskólanum á Akureyri. Í starfinu eru miklir möguleikar og pláss, eins og hún kallar það. Vegna reynslu hennar að spila með mörgum hljómsveitum hefur hún verið spennt fyrir að stjórna hljómsveit sjálf.

Tvær hljómsveitir

Í Tónlistarskólanum á Akureyri eru tvær skólahljómsveitir: grunnsveitin og blásarasveitin. Á Akureyri er ekki lengur starfandi lúðrasveit en þó vinna fyrrum félagar hennar með blásarasveitinni á hátíðisdögum, til dæmis á frídegi verkalýðsins  Síðan hélt sveitin hrekkjavöku og spila með1. maí og 17. júní. Segir hún bæði gömlu spilararana græða á þessu samstarfi og einnig meðlimi blásarasveitarinnar en sveitirnar komu meðal annars saman þegar kveikt var á jólaljósunum á jólatrénu á Ráðhústorgi í nóvember síðastliðnum.

Sóley leggur áherslu á að blásarasveitin spili og æfi mikið. Hún segir sveitina vera gríðarlegan drifkraft fyrir nemendur skólans til að spila á hljóðfæri og æfa sig. Starfinu fylgi mikill félagsskapur, tónleikahald og ferðir. Sóley segir að hún hefði sjálf varla haldið áfram tónlistarnámi ef það hefði ekki verið fyrir skólahljómsveitarstarfið þegar hún var yngri. „Með því að hafa þetta starf svona skemmtilegt og spennandi þá getur maður fengið marga krakka til að koma og spila með,“ segir Sóley, „ég reyni að leggja áherslu á fjölbreytt og óhefðbundið efni fyrir blásarasveitina og einnig yngri nemendur sem eru í einstaklingskennslu hjá mér vegna þess að þeir eru framtíðar meðlimir í sveitum skólans.“

Hefur ákveðið frelsi

Blásarasveitin er með tvo hefðbundna tónleika á ári, jólatónleika og vortónleika. Sóley fékk einnig að skipuleggja þematónleika í mars síðastliðnum, Bíópopp, sem voru haldnir í Hofi og þar spilaði blásarasveitin popplög í bland við bíómyndatónlist. Síðan hélt sveitin hrekkjavökutónleika í stóra salnum í Hofi þar sem nemendur og Sóley voru í búningum. Sóley segir mikla spennu hafa verið meðal meðlima vegna tónleikanna og stefnt er á að endutaka leikinn að ári. Sóley hefur fengið ákveðið frelsið í starfi stjórnanda og segir gaman hversu vel er tekið í hugmyndir hennar.

Sóley hvetur fólk á Norðurlandi sem spilar á hljóðfæri til þess að hafa samband ef það langar til að spila með blásarasveitinni á hátíðisdögum. Fyrir áhugasama þá mun blásarasveitin halda jólatónleika 2. desember kl. 17:30 í Hömrum í Hofi en eins og á alla viðburði sveitarinnar er aðgangur ókeypis.

-IHJ

 

Nýjast