Mæðgur hafa stjórnað kórum í samanlagt 71 ár

Mæðgurnar Ásta Magnúsdóttir og Hólmfríður Benediktsdóttir en myndin var tekin árið 1997 í Þýskalandi…
Mæðgurnar Ásta Magnúsdóttir og Hólmfríður Benediktsdóttir en myndin var tekin árið 1997 í Þýskalandi í kórakeppni þar sem Stúlknakór Húsavíkur fékk silfurverðlaun.

Mæðgurnar Hólmfríður Benediktsdóttir og Ásta Magnúsdóttir kórstjórar sameina fyrrum kórmeðlimi til söngs á Mærudögum og bjóða til tónleika í Húsavíkurkirkju. Tónleikarnir hefjast klukkan 17 á föstudag. Enginn aðgangseyrir.

Mæðgurnar hafa alla tíð haft mikla ástríðu fyrir kórastarfi og státa af  71 árs reynslu samanlagt af kórstjórn.

„Við tökum eina æfingu, ryfjum upp nokkur skemmtileg og hress kórlög og höldum tónleika til að skemmta okkur og þeim sem vilja koma og sjá okkur. Einnig verður samsöngur líkt og við mægður vorum með í fyrra í kirkjunni á Mærudögum,“ segir Ásta og bætir við að þær mæðgur hafi stjórnað ótalmörgum kórum í gegnum tíðina.

„Mamma byrjaði árið 1974 með vélstjórakórinn í Stýrimannaskólanum í Reykjavík og bjó til kór fyrir skrúfudaginn. Amma í Kópavogi passaði Magga bróður á meðan og fékk því helminginn af laununum. Mamma á því 50 ára kórstjóraafmæli núna í ár. Undanfarin ár hefur hún stjórnar Sólseturskórnum á Húsavík, kór eldriborgara sem afi Benni stýrði einnig á sínum tíma, en hætti í vor með kórinn og hefur því lokið kórstjórnarferlinum,“ segir Ásta.

Sjálf steig Ásta sín fyrstu skref við kórstjórn árið 2003 þegar hún tók að sér að stjórna Barnakór Glerárkirkju og á því sjálf 21 árs kórstjóraafmæli.

„Í dag er ég með 3 kóra í Smáraskóla, Kópavogi og mamma er svo sannarlega mín fyrirmynd í því sem ég tek mér fyrir hendur. Ég bý að því að hafa alist upp í kór hjá mömmu,“ segir Ásta að lokum.

Þá er bara að fjölmenna í Húsavíkurkirkju á föstudag þessum máttarstólpum húsvískrar menningar til heiðurs. Tónleikarnir hefjast eins og áður segir klukkan 17:00.

Kóra auglýsing

Nýjast