Listamaður Norðurþings gefur til baka
Einar Óli Ólafsson er tónlistarmaður og listamaður Norðurþings. Eftir að hafa upplifað páska á Húsavík þar sem honum þótti lítið um að vera í menningarlífinu hefur hann nú tekið höndum saman og hyggst setja á fót tónleikahátíð á Húsavík. Markmiðið með hátíðinni segir hann vera að bjóða upp á fjölbreytt úrval tónlistar þar sem grasrótin í tónlistarlífi Norðlendinga er virkjuð. Fyrirmyndin er tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður á Ísafirði og draumurinn er að um árlegan viðburð verði að ræða.
Einar Óli starfar við Tónlistarskólann á Húsavík og í félagsþjónustunni en meðfram því hefur hann starfað við eigin tónlist undanfarin ár. Árið 2021 gaf hann út plötuna Mind Like A Maze sem er aðgengileg á spotify ásamt nokkrum smáskífum. þá vakti hann mikla athygli þegar hann tók þátt í Idol stjörnuleit hér um árið og hleypti í kjölfarið af stokkunum sinni eigin Idol keppni á Instagram.
Vill skilja eitthvað eftir sig
Einar Óli þegar hann var valinn Listamaður Norðurþings á síðasta ári við hátíðlega athöfn á Húsavk. Með honum á myndinn eru Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri Norðurþings og Nele Marie Beitelstein fjölmenningarfulltrúi. Mynd: Hafþór Hreiðarsson.
Einar Óli var valinn Listamaður Norðurþings á síðasta ári en hann brennur fyrir það að skapa eitthvað nýtt og leyfa fólki að njóta með sér afrakstursins á tónleikum eða í gegnum samfélagsmiðla og steymisveitur.
Nú ætlar þessi húsvíski tónlistarmaður að skapa tónlistarhátíð sem mun án efa beina kastljósinu til Húsavíkur um ókomin ár.
„Ég er að taka upp á þessu sjálfur en þetta er svona partur af samstarfinu við sveitarfélagið sem felst í því að vera listamaður Norðurþings,“ segir Einar Óli í samtali við Vikublaðið og er stórhuga þegar kemur að tónleikahaldi.
Virkjar grasrótina
„Það er planið að finna einhverja skemmu niðri á bryggju og það er verið að vinna í því að bóka húsnæðið. Planið er að leggja undir sig eina kvöldstund um páskana fyrir tónleikahald. Áherslan verður á Norðurlandið og frumsamið efni. Það er mikið af efnilegu tónlistarfólki hér í næsta nágrenni við okkur sem bíður bara eftir því að fá vettvang til að koma sér á framfæri,” segir Einar Óli og bætir við að nú þegar séu nokkrir listamenn frá Akureyri búnir að staðfesta komu sína á hátíðina auk tónlistarfólks frá Húsavík.
„Ég ætla að hafa þetta mjög fjölbreytt allt frá rappi yfir í rokk og allt þar á milli,” segir Einar Óli og lætur ekki dyljast að hér sé um draum að ræða sem hann hefur gengið með um all nokkurt skeið.
Fékk innblástur á Ísafirði
Sjálfur segist Einar Óli vera mikill aðdáandi tónlistarhátíðarinnar Aldrei fór ég suður sem haldin er ár hvert á Ísafirði en þangað sækir hann innblástur. „Ég bjó á Ísafirði í nokkur ár og heillaðist af hátíðinni Aldrei fór ég suður og hef alltaf spurt mig að því hvers vegna ekki sé hægt að gera eitthvað svipað hér á Húsavík,“ segir Einar Óli sem nú hefur tekið málin í sínar hendur og lætur verkin tala. „Ég er búinn að ganga með þetta í maganum um nokkurt skeið og í kjölfar þess að vera valinn listamaður Norðurþings ákvað ég að kíla á þetta í tengslum við það.“
Einar Óli segir að um síðustu páska hafi hann verið á Húsavík og það hafi verið mikið af fólki í bænum en ekkert sérstakt um að vera. „Mér fannst það alveg ómögulegt og langaði til að bæta úr þessu.“
Komið til að vera
Þegar Einar Óli var valinn Listamaður Norðurþings lá fyrir að hann myndi standa að einhverskonar tónlistarviðburði í samtarfi við sveitarfélagið. „Mig langaði í tenglum við það að gera eitthvað meira en bara að spila sjálfur. Eitthvað sem skilur eftir sig, ekki bara einhverja tónleika og svo búið. Ég vil að þetta verði komið til að vera,“ segir hann og kveðst bjartsýnn á að verkefninu verði vel tekið í heimabyggð.
Einar Óli hefur að mestu staðið í skipulagningu að hátíðinni sjálfur en nú séu komnir fleiri hendur að verkinu enda sé stutt í páska og þörf á því að láta hendur standa fram úr ermum. „Húsavíkurstofa hefur komið með mér inn í þetta á lokasprettinum,“ segir Einar Óli að lokum og lofar upplifun sem lengi muni lifa í minningunum.