20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Leyfilegt að taka besta vininn með á Sykurverk
„Okkur langaði óskaplega mikið að prófa þetta, við gefum þessu sem tilraun nokkra mánuði en skemmst er frá því að segja að fyrstu dagarnir fara vel af stað,“ segir Helena Guðmundsdóttir sem ásamt tveimur dætrum sínum, Karolínu Helenudóttur og Þórunni Jónu Héðinsdóttur rekur kaffihúsið Sykurverk við Strandgötu á Akureyri. Þar á bæ hafa öll tilskilin leyfi fengist frá Heilbrigðiseftirliti Eyjafjarðar þannig að hundar geta fylgja eigendum sínum á kaffihúsið. „Við hlökkum mikið til að sjá hvernig þetta þróast, fyrstu hundarnir eru þegar mættir og sitja prúðir í taumi hjá eigendum sínum.“
Helena og Þórunn Jóna, yngsta dóttir hennar fengu sér hund, þýskan pincher og kom hann til þeirra fyrir tveimur vikum. Einungis eru um 10 hundar af þeirri tegund til á Íslandi. Ræktun er hafin á tegundinni í Hveragerði þar sem þær mæðgur fengu sinn hund, Móra Sykurmola. „Þetta er yndislegur hundur, mikill gleðigjafi eins og hundar eru yfirleitt. Það gefur okkur mikið að umgangast hann,“ segir Helena en sem barn átti hún hund og dreymdi um að einn góðan veðurdag myndi hún á ný eignast hund. „Sá draumur minn hefur nú ræst og við erum alsælar með nýju viðbótina við fjölskylduna.“
Helena og dætur hennar tvær hafa rekið Sykurverk, kaffihús og veisluþjónustu í rúm þrjú ár, voru til að byrja með til húsa við Brekkugötu en hún og eiginmaðurinn festu kaup á 184 fermetra húsnæði þar sem Pósturinn var með miðbæjarstöð um árabil, við Strandgötu 3. „Þetta er ágætis húsnæði og hentar okkar rekstri vel. Við byrjuðum á að taka allt í gegn og gerðum heilmiklar breytingar, enda annað að reka kaffihús en pósthús,“ segir hún. Sykurverk opnaði eftir endurbætur í nýju húsnæði í desember árið 2021.
Móri sykurmoli hallar undir flatt og unir sér greinilega vel á kaffihúsinu.
Jákvæð viðbrögð
Hugmyndin um að leyfa hundum aðgang að kaffihúsinu kviknaði þegar þær störfuðu í Brekkugötu enda eru þær mæður allar miklir dýravinir. „Húsnæðið þar var hins vegar þannig að því varð ekki viðkomið, rýmið hentaði ekki, það var einn inngangur að kaffihúsinu en núna eru þeir eru tveir, sitt hvoru megin og það breytir miklu. Einnig fjarlægð frá vinnslurýminu sem var ekki nægilega langt frá salnum á gamla staðnum en er það núna. „Við dustuðum því rykið af hugmyndinni um hundavænt kaffihús og höfum nú hrint henni í framkvæmd,“ segir Helena.
Til að byrja með ætlað þær að líta svo á að um tilraun sé að ræða og að hún standi yfir í nokkra mánuði. „Við höfum nánast eingöngu fengið jákvæð viðbrögð og hundaeigendum þykir þetta alveg frábært. Ég á auðvitað von á að heyra neikvæðu raddirnar, þær hljóta að berast líka, en við sjáum til hvernig þetta þróast,“ segir Helena. Sykurverk ef lokað á mánudögum og laugardagar eru stærstu dagarnir í rekstrinum, þá streymir fólk á kaffihúsið og er mikil umferð allan daginn, þannig að ákveðið var að kaffihúsið yrði hundafrítt þann dag. Alla aðra daga eru hundar velkomnir með eigendum sínum.
Allt bakað á staðnum
Helena segir að auk þess að reka kaffihús þar sem allar kökur og brauðmeti sé bakað á staðnum séu þær einnig með veisluþjónustu. Mikið sé um að kökur séu pantaðar hjá þeim við alls kyns tækifæri, afmæli, skírnir, fermingar og veisluhöld af öllu tagi. Kynjakökur hafi svo verið að ryðja sér til rúms undanfarið þannig að tilefni þess að panta tertur eru margvísleg. Allar kökur eru pantaðar í gegnum heimasíðu Sykurverks.
„Það er mikið er að gera í veisluþjónustunni og því sem fólk tekur með sér út. Núna sem dæmi fer sá tími að renna upp að við verðum ansi uppteknar við að baka sörur, þær fylgja jólunum og eru orðnar hluti af hefðinni í kringum jólaveislur ýmis konar. Það hefur alltaf verið mikið um sörubakstur frá því við byrjuðum að bjóða upp á þann kost og fer vaxandi,“ segir hún en í boði er fjöldi bragðtegunda, um 10 í allt og þá er hægt að fá vegansörur líka sem njóta mikillar hylli.