Leikskólinn Iðavöllur hlaut styrk úr samfélagssjóði EFLU
Úthlutað var úr samfélagssjóði EFLU nýverið og fékk eitt verkefni á Norðurlandi styrk, en það er leikskólinn Iðavöllur á Akureyri vegna verkefnisins „Það er leikur að læra.“ Markmið verkefnisins er að efla íslenskukunnáttu barna og foreldra af erlendum uppruna, styrkja samstarf milli skóla og heimilis, auka þátttöku foreldra í skólastarfi og auðvelda fjölskyldum af erlendum uppruna að mynda tengsl í íslenskt samfélag.
Segir í tilkynningu að styrkurinn verði nýttur til að útbúa tösku sem börn af erlendum uppruna geta skipst á að taka með sér heim. Þá sé markmiðið með verkefninu einnig að efla orðaforða sem þau læra hverju sinni í leikskólanum. Í töskunni verður að finna spjaldtölvu með orðaforðaverkefnum, spil, bækur og hugmyndir að leikjum.