Kvennakórinn Embla heldur tónleika í Glerárkirkju n.k. laugardag

Kvennakórinn Embla flytur verkið Tuvayhun eftir Kim Andre Arnesen ásamt einsöngvurunum Heiðdísi Hönnu Sigurðardóttur, Erlu Dóru Vogler, Sigrúnu Hermannsdóttur og Einari Inga Hermannssyni. Með kórnum spila hljóðfæraleikarar á strengjahljóðfæri, hljómborðshljóðfæri, gítar, flautur og slagverk og stjórnandi er Roar Kvam.

Kim Andre Arnesen(1980-) samdi verkið Tuvayhun (Blessun í særðum heimi) árið 2018, verkið er fyrir samkynja raddir, sópran, alt og barítón einsöng ásamt hljómsveit. Kim Andre Arnesen var tilnefndur til Grammy verðlauna árið 2016 fyrir verk sitt Magnificat og kórverk hans hafa verið flutt um allan heim. Í verkinu leitast tónskáldið við að blanda saman tónlist úr mismunandi menningarheimum til að hvetja hlustandann til að sjá okkur sjálf í öðrum.

Tónlistin í Tuvayhun fer með okkur í ferðalag djúpra tilfinninga og mannlegra aðstæðna. Tónlistin ferðast fram og til baka á milli hins forna, helga, nútímalega og djúpa; allt frá hálfgerri helgistundatónun til líflegra þjóðdansa, þar sem hljómsveitin vefar hljómfögur klæði og einleikarar spinna í vefinn, frá því kunnuglega yfir í það nýstárlega - og til baka. Tónlistin og textarnir sækja innblástur í Sæluboðin úr Fjallræðunni (Mattheusarguðspjall), þar sem við erum minnt á alla þá mannlega eiginleika sem við öll höfum. Við lifum í viðkvæmum en ægifögrum heimi þar sem stríð geisa og eigum öll okkur þá ósk um að búa í friðsælum heimi, að við öll skiljum að innra með okkur býr máttur til að breyta heiminum og skilja fjölbreytileika mannkynsins.

Í Tuvayhun eru Sæluboðin úr Fjallræðunni flutt á hinu forna tungumáli arameísku sem inngangur að hverjum kafla verksins og söngtextarnir samdir af Charles Anthony Silvestri eru á ensku, þar sem hann sækir innblástur í hvert Sæluboð. Tuvayhun er arameíska og fyrsta orð í hverju
Sæluboði og merkir Blessun, blessun til handa þeirra sem minna mega  sín og með því vakin athygli á þeim sem við öll getum sýnt kærleik, skilning og blessun.

Tónleikarnir eru sem fyrr sagði í Glerárkirkju á laugardaginn og hefjast þeir kl 17.00.  Miðaverð er kr. 5.000 og verður posi á staðnum.

Nýjast