Kuldatíð seinkar vorverkum

Svell hafa legið yfir túnum í Svarfaðardal í meira en 100 daga gerir að verkum að auknar líkur eru á…
Svell hafa legið yfir túnum í Svarfaðardal í meira en 100 daga gerir að verkum að auknar líkur eru á kali. Víða annars staðar í héraði hefur verið klaki en í skemmri tíma. Séð heim að Urðum í Svarfaðardal. Mynd Sigurgeir Hreinsson

Talsverðar líkur er á að kal verði í túnum í Svarfaðardal en sennilega sleppa önnur svæði í héraðinu betur þó ekki sé það fullvíst. Kuldatíð seinkar vorverkum bænda og gæti í versta falli orðið til þess að spretta fari seinna af stað en vanalega, snjór er yfir öllum túnum og því ekki hægt að bera á.

Sigurgeir Hreinsson framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Eyjafjarðar segir vissulega bagalegt að fá mikinn snjó svo seint að vetrinum, en almennt hafi verið snjólétt þar til fór að kyngja niður um páskana. „Veturinn var alls ekki slæmur, það fór í raun ekki að snjóa að ráði fyrr en um mánaðamótin mars og apríl. Síðan hefur ríkt kuldatíð og snjór liggur yfir öllum túnum,“ segir hann.

Í desember var talsverð snjókoma en snjór hvarf víðast hvar ef undan er skilinn Svarfaðardalur. Þar hafa verið svell og óttast Sigurgeir að tún geti kalið á því svæði. „Það er yfirleitt miðað við að liggi svell yfir túnum í 90 til 100 daga eru allar líkur á að verði umtalsvert kal, þannig að hættan er þar vissulega fyrir hendi.,“ segir Sigurgeir. Klaki hefur verið víðar í héraði, en legið yfir skemur og því enn von til að þau svæði sleppi að mestu.

Haughúsin að fyllast

Mikill snjór er hins vegar yfir og því ekki hægt sinna því sígilda vorverki að bera húsdýraáburð á tún sem iðulega er gert í apríl mánuði. Nema þá að tíðarfari komi í veg fyrir það líkt og nú. „Ég er smeykur um að haughúsin séu víða að fyllast og vonandi fer að rætast úr þannig að hægt verið að dreifa húsdýraáburði á tún

Sauðburður hefst hjá þeim sem fyrstir eru jafnvel í næstu viku, en Sigurgeir segir að þeir bændur sem hefji sauðburð snemma hafi yfirleitt yfir að ráða góðu húsplássi og séu við öllu búnir „Það er frekar slæmt að fá svona gusu yfir sig á þessum tíma en enn sem komið er getur ræst úr þessu og það hefur engin skelfing gripið um sig enn,“ segir Sigurgeir.

Nýjast