Kjúklingur, pönnusteiktur lax og döðlukaka með karamellukremi

Guðrún Birgisdóttir
Guðrún Birgisdóttir

Ég elska að útbúa mat, á mjög erfitt með að fara eftir uppskriftum og er, um leið og ég les uppskriftir, búin að breyta þeim eitthvað, bæta við og svona,“ segir Guðrún Birgisdóttir sem sér um matarkrók vikunnar. „Gallinn er að ég gleymi oft að skrifa niður hvað ég geri í hitt og þetta skiptið svo það er sjaldan eins hjá mér og manninum mínum og fjölskyldunni leiðist það ekkert!

 Rósmarín- og sítrónukjúklingaréttur fyrir 3-4 3 kjúklingabringur

Ca. 2 msk. rósmarínkrydd, má líka vera ferskt

1 sítróna

Dass grófmalaður svartur pipar

Smá salt

Smá olía til marineringar

Matvinnslurjómi

Kjúklingakraftur

Aðferð:

Hreinsar bringurnar eftir þörfum og skerð þær í helming eftir endilöngu.

 Blandar saman í skál olíu, pipar, rósmarínkryddi og safa úr sítrónunni, leggur bringurnar í þetta og veltir þeim upp úr blöndunni. Gott að snúa þeim annað slagið, þetta þarf ekkert að liggja nema um klukkutíma ef sá tími er fyrir hendi.

Hitið pönnuna vel og látið olíuna renna vel af bringunum í skálina, brúnið bringurnar.

Þegar þær eru orðnar fallega brúnaðar, hellið þá restinni úr skálinni á pönnuna, bætið við kjúklingakrafti, einum teningi, leyfið að malla smá, bætið síðan við matvinnslurjóma, smakkið til hvort vanti salt. Má þykkja sósuna með maizena ef vill.

Döðlukaka með karmellukremi 

 Botn:

 250 grömm þurrkaðar döðlur

1 tsk. matarsódi

125 grömm smjör

100 grömm púðursykur

2 egg

260 grömm hveiti

 240 ml sjóðandi vatn

 1 tsk. vanilludropar

Aðferð:

Saxið döðlurnar og setjið í miðlungsstóra skál. Bætið matarsódanum í, hellið svo sjóðandi vatninu yfir allt saman og hrærið létt með skeið. Leyfið að standa í ca. 20 mínútur.

Þeytið saman smjör, púðursykur og vanilludropa þangað til ljóst og létt. Bætið eggjunum við, einu í einu, og þeytið á milli. Hellið svo döðlumaukinu ofan í ásamt hveitinu og hrærið saman með skeið. Smyrjið formið vel (ég nota 22 cm springform) og hellið deiginu ofan í. Bakið við 180°C í ca. 45 mínútur.

Karamella:

 85 grömm púðursykur

200 ml rjómi

40 grömm smjör

 1 tsk. vanilludropar

Aðferð:

Setjið í pott við miðlungshita og hrærið þangað til suðan kemur upp, lækkið þá hitann og leyfið að malla í 8-10 mínútur. Kælið karamelluna þangað til hún er orðin passlega stíf og hellið henni yfir kökuna.

Kjúklingur á spjóti  í chilimarineringu: 

 1/2 ferskur chili

2-3 hvítlauksrif

1/2 msk. sætt sinnep

50-60 ml soyasósa

1/2 laukur

150 ml olía

4 msk. púðursykur

Skellið þessu öllu í blandara.

Kjúklingabringur teknar og klofnar í tvennt, gott að skipta hverri bringu í fjóra parta. Leggið bringurnar í marineringuna, leyfið að liggja í ca. 2-4 klukkutíma.

Takið spjót og leggið í bleyti ef þarf, þræðið síðan bringurnar upp á spjótin.

Gott að grilla kjúklinginn.

Borið fram með sætum kartöflum og fersku salati með heimatilbúnu brauðteningunum úr síðasta blaði.

Pönnusteikt bleikja:

 Smá olía sett í fat

Sesamfræjum blandað saman við

 Dass sítrónupipar

Má leyfa bleikjustykkjunum að liggja í þessu nokkra stund.

Síðan er bleikjan steikt í íslensku smjöri og örlítilli olíu saman við á pönnu.

 Sætar kartöflur skornar í teninga. Kryddaðar með salti og pipar. Olíu hellt yfir. Bakað í ofni við 180°C í ca. 30-40 mín. Borið fram með fersku salati, frábært að setja jarðarber og melónukúlur í og tala nú ekki um brauðteningana góðu. 

 Ég ætla að skora á vin minn, Kristján Heiðar Kristjánsson, að koma með uppskriftir í næsta blað.

Nýjast