20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Kirkjugarðar Akureyrar í rekstrar vanda og næsta skref að loka líkhúsinu
„Hvað verður um líkin?“ er spurning sem Akureyringar og nærsveitarmenn velta fyrir sér þessa dagana, en Kirkjugarðar Akureyrar sem reka líkhús og kapellu á Naustahöfða eru í rekstravanda vegna fjárskorts. Kirkjugörðunum er óheimilt að innheimta þjónustugjald vegna starfsemi líkhúsanna. Einkaaðilar gætu innheimt slíka gjöld en fáir hafa áhuga á að reka líkhús hér á Akureyri. Engin leið önnur er út úr vandanum nema sú að hætta rekstri líkhússins. Stefnir í að skellt verði í lás grípi Alþingi ekki í taumana á vorþingi og geri Kirkjugörðum heimilt að innheimta þjónustugjaldið eða leggja til fjármagn til starfseminnar.
„Við höfum á undanförnum árum skorið í burtu alla fitu og ekkert er eftir nema það að leggja niður starfsemi líkhússins,“ segir Smári Sigurðsson framkvæmdastjóri Kirkjugarða Akureyrar. Starfsfólki hefur verið fækkað, endurnýjun véla og búnaðar er haldið í algjöru lágmarki og viðhald mannvirkja situr á hakanum. „Það hefur allt verið gert, við skerum endalaust niður. Þetta mál hefur verið í gangi mjög lengi og nú er bara komið að þessu,“ segir hann en kveðst ekki hafa svör við því þeirri spurningu sem brennur á almenningi, hvað verði um líkin þegar líkhúsinu verði lokað. Nefnir hann sem dæmi að aðstandendur gætu ef til vill leigt rými í kæligámum eða látið þau standa uppi í heimahúsum upp á gamla mátann. „Það er í raun ekki okkar mál til hvaða ráða fólk grípur, okkar lögbundna hlutverk er að reka kirkjugarð og taka við líkum til greftrunar. Staðan er sú að engum ber skylda til að reka líkhús eins einkennilega og það kann að hljóma.“
Smári Sigurðsson
Kælirými fyrir 24 lík
Eitt stórt líkhús er á Norðurlandi, það sem er við Kirkjugarða Akureyrar. Auk þess eru lítil herbergi eða geymslur á nokkrum heilsugæslum. Líkhúsið er vel búið að öllu leyti og eru kælirými fyrir 24 lík í húsinu. Smári segir að sú þróun hafi orðið á liðnum árum að líkin séu lengur í húsinu en áður var. „Ætli skýringin sé ekki fyrst og fremst sú að nútímamaðurinn hefur svo mikið að gera að það þarf tíma til að ganga frá útför. Sumir þurfa að gera svo margt áður en af henni getur orðið, jafnvel bregða sér til Tene,“ segir hann og nefnir að áður fyrr voru líkin um það bil viku i húsinu en nú sé ekki óalgengt að þau séu þar í tvær og upp í fjórar vikur.
Rekstur líkhúsa er ekki á meðal lögbundinna verkefna kirkjugarðanna, í raun segir Smári að enginn beri formlega ábyrgð á því að reka líkhús. „Lögum samkvæmt er okkur ætlað að taka grafir og sjá um umhirðu kirkjugarða. Fjárframlag til rekstursins hefur jafnt og þétt um árin verið skorið niður og er nú svo naumt skammtað að okkur er nauðugur þessi eini kostur, að loka líkhúsinu. Það gerum við ekki af neinni léttúð, langt í frá,“ segir Smári og nefnir að það eina sem forðað gæti þeirri stöðu er að Alþingi takið málið upp á vorþingi, breyti lögum í þá átt að kirkjugörðum verði heimilt að innheimta þjónustugjaldið.
Slík gjald var við lýði fyrir allmörgum árum. Gjaldtakan var kærð, og Umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri lagastoð fyrir hendi hjá kirkjugörðunum til að innheimtunnar. Umboðsmaður hefur tvívegis að sögn Smára sent Dómsmálaráðuneytinu ábendingu um að færa mál til betri vegar en af því hefur ekki orðið þó nær tvær áratugir séu liðnir frá því málið kom upp.
Hafa haft málið á borðinu síðan 2007
„Við fáum ævinlega þau svör að verið sé að skoða málið og nú er svo komið að stjórnvöld hafa verið að skoða þetta mál frá árinu 2007, þegar niðurstaða Umboðsmanns lá fyrir. Það er ansi langur skoðunartími og allt er við það sama endalaust,“ segir hann. Nýr dómsmálaráðherra hafi tekið vel í að fara yfir málið, „og ég var satt að segja vongóður um að nú myndi þetta lagast, en síðan er liðið hálft ár og lítið heyrist,“ segir Smári og að engin teikn séu á lofti um að vorþingið takið málið til umfjöllunar. „Þetta er alveg ótrúleg stjórnsýsla. Ríkið hefur dregið lappirnar árum saman.“
Hvernig samfélagi viljum við búa í
Fyrr í vetur auglýsti Smári líkhúsið til sölu og segir að viðbrögð hafi verið nokkur. „Það höfðu nokkrir áhuga, en reyndar ekki til að reka þá starfsemi sem fyrir er í húsinu heldur til að nýta húsið í eitthvað annað,“ segir hann. Ekki stefni í annað eins og staðan er en að rekstri líkhússins verði hætt og það sé vissulega afleit staða, enda sjúkrahús og öldrunarheimili í bænum sem ekki hafi aðstöðu til að vista þá látnu. „Við þurfum að ræða hvernig samfélag við viljum búa í,“ segir hann og að fáir myndu vilja sjá látna ástvini geymda í kæligámi frá andláti fram að útför.
„Aldursdreifing þjóðarinnar er með þeim hætti að fyrirsjáanlegt er að útförum mun fjölga um 100% á næstu 20 árum frá því sem nú er. Það er því að mínu mati ekki eftir neinu að bíða með að ákveða í hvaða farvegi þessi mál eiga að vera,“ segir Smári.