20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Jólamyndir fyrir alla fjölskylduna
Jólablað Vikudags er fylgiblað hins hefðbundna Vikudags. Vikudagur sjálfur er borinn í hús til áskrifenda og seldur í lausasölu eins og endranær en Jólablaðið fer í mun víðari dreifingu. Blaðið var, líkt og undanfarin ár, unnið af nemendum í námskeiðinu Prentmiðlun við Háskólann á Akureyri. Bragi V. Bergmann, hjá FREMRI Almannatengslum, bar ábyrgð á námskeiðinu að þessu sinni og þakkar nemendum sínum gjöfult samstarf og góð kynni. Nemendurnir sem komu að vinnslu blaðsins voru níu talsins, ýmist staðarnemar eða fjarnemar í HA. Átta þeirra eru í fjölmiðlanámi en einn í sálfræðinámi. Vikudagur.is mun birta greinar úr jólablaðinu yfir hátíðarnar.
Jólamyndir fyrir alla fjölskylduna
Nú styttist í jólin og þá getur verið gott að taka smá tíma frá öllu stressi og horfa á kvikmyndir með fjölskyldunni. Oft reynist erfitt að ákveða hvaða mynd skal horfa á. Til eru fjöldinn allur af kvikmyndum sem tengjast jólunum á einhvern hátt og því er erfitt að velja. Hér eru nokkrar hugmyndir að kvikmyndum sem ættu að koma allri fjölskyldunni í gott jólaskap.
The Polar Express (2004)
Ungur drengur lendir í töfrandi ævintýri þegar hann ferðast til norðurpólsins með lest. Á leiðinni lærir hann margt um lífið og tilveruna. Hann áttar sig á því hvað sönn vinátta er, hvernig á að vera hugrakkur og hver hinn sanni jólaandi sé.
The Santa Clause (1994)
Þegar Scott Calvin tekst á ótrúlegan hátt að verða jólasveininum að bana á aðfangadag, tekur hann starfið í sínar hendur og reynir að bjarga jólunum. Algjört jólaævintýri þar sem álfar búa til gjafir fyrir börnin, hreindýrin fljúga með sleða jólasveinsins og önnur kraftaverk gerast. Frábær mynd fyrir alla fjölskylduna.
How the Grinch Stole Christmas (2000)
Bandarísk ævintýramynd byggð á frægri sögu eftir Dr. Seuss um furðuveruna Trölla sem reynir að stela jólunum frá íbúum lítils bæjar í ævintýralandi þar sem jólin eru haldin hátíðleg. Trölli lærir ýmislegt um jólin, þau snúast ekki um steikina, trén eða pakkana heldur kærleikann í hjörtum manna.
Home Alone (1990)
Fjölskylda ein leggur af stað í ferðalag um jólin. Foreldrunum tekst á ótrúlegan hátt að gleyma 8 ára syni sínum, honum Kevin, heima og þarf hann að bjarga sér. Ástandið versnar hins vegar þegar ræningjar reyna að brjótast inn á heimilið. Drengurinn gerir allt til þess að passa húsið fyrir jólaræningjunum.
Jack Frost (1998)
Jack missir af íshokkýleik sonar síns og lofar honum að fjölskylda mundi fara í ferð saman um jólin í staðinn. Það loforð getur Jack ekki efnt því hann deyr í hræðilegu bílslysi. Einu ári seinna snýr hann aftur í líkama snjókarls. Hann gerir allt til þess að laga samband sitt við son sinn áður en hann bráðnar og verður horfinn fyrir fullt og allt. Falleg kvikmynd sem snýst um samband fjölskyldunnar og jólin.
Jingle All the Way (1996)
Howard Langston lofar að gefa syni sínum nýtt dót sem er Túrbó-Maðurinn í jólagjöf. Hann gleymir að kaupa gjöfina og þá eru góð ráð dýr. Túrbó- Maðurinn er uppseldur í öllum búðum bæjarins. Howard ferðast um allan bæ í leit að síðasta eintakinu svo hann geti staðið við loforðið. Hann leggur mikið á sig og lendir í alls konar ævintýrum á leiðinni.
Home Alone 2 (1992)
Myndin gerist einu ári eftir að fjölskyldan gleymdi Kevin heima um jólin. Að þessu sinni tekst Kevin að villast í New York þar sem hann þarf enn og aftur að bjarga sér. Vandræðagangur hans eykst þegar hann rekst á sömu ræningjana og reyndu að ræna hann árið áður. Home Alone-myndirnar klikka aldrei, þær eru frábær skemmtun fyrir alla fjölskylduna.
Ingvi Örn Friðriksson