Jólablað Skarps kemur út í dag

Þessi glæsilega mynd Hreins Hjartarsonar af norðurljósum yfir Húsavík, prýðir forsíðu Jólablaðs Skar…
Þessi glæsilega mynd Hreins Hjartarsonar af norðurljósum yfir Húsavík, prýðir forsíðu Jólablaðs Skarps.

Enn eitt Jólablað héraðsfréttablaðsins  Skarps lítur nú dagsins skammvinna ljós. Og samkvæmt hefð sem skapast hefur, þá er einkum litið til fortíðar í þessu blaði og jafnvel fjarlægrar fortíðar, þar sem segir frá heimsókn enskrar hefðarkonu til Húsavíkur árið 1879.

Sigurjón Jóhannesson ritar stórfróðlegan þátt um Guðmund Hofdal Sigurjónsson, Mývetninginn og íþróttagarpinn sem átti ævintýralega æfi og var að síðustu  geymdur í frystigeymslu Kaupfélags Þingeyinga í fimm mánuði árið 1967.

Skemmtileg og hnyttin er sagan af því þegar Húsvíkingar hugðust henda Byron lávarði á haugana, en hálfviti kom í veg fyrir þann gjörning.

Erla Jónsdóttir, fyrrverandi bókavörður í Kópavogi, ritar fróðlegan og þjóðlegan pistil um heimilisiðnað í Breiðuvík á Tjörnesi á 19. öld.

Forvitnileg er jólakrítík höfundar sem kallar sig Ebba Skrögg. Greint er frá frumlegri jólapiparkökuhúsagerð tónlistarmannsins  Guðna Bragasonar. Og sitthvað fleira smálegt er að finna á síðum Jólablaðsins 2016 og fastir liðir þar eins og venjulega. JS

Nýjast