Hópur kínverskra kafara mynda svartfugl við Flatey

Kafararnir brostu út að eyrum eftir vel heppnaðan ljósmyndaleiðangur við Flatey. Mynd/ Stefán Guðmun…
Kafararnir brostu út að eyrum eftir vel heppnaðan ljósmyndaleiðangur við Flatey. Mynd/ Stefán Guðmundsson.

Erlendur Bogason kafari rekur köfunarfyrirtækið Strýtuna í gömlu síldarbræðslunni á Hjalteyri. Hann hefur í nærri þrjá áratugi myndað og rannsakað lífverur neðansjávar við strendur Íslands og víðar. Myndatökurnar hafa aukist ár frá ári en viðskiptavinir hans eru meðal annars stórar efnisveitur, svo sem Netflix.

Á miðvikudaginn 7. ágúst hélt Erlendur ásamt sínu teymi af stað út á Skjálfanda í samstarfi við Gentle Giants hvalferðir með hóp kafara og ljósmyndara frá Shanghai og Peking í Kína. Markmiðið var að mynda lunda neðansjávar við Flatey.

Vel heppnaður leiðangur

Erlendur með teynmir

Erelendur (í miðjunni) kom ánægður úr undirdjúpunum, hér ásamt ásamt Hildi og Antoni úr Strýtuteyminu. Mynd/Stefánn Guðmundsson.

 Ferðin gekk vel og að sögn Erlendar náðust fínustu myndir. „Það náðist alla vega eitthvað, allir komu glaðir til baka þannig að það var aðal málið,“ segir Erlendur í samtali við Vikublaðið en Strýtan köfunarþjónusta þjónustar fjölbreyttan hóp viðskiptavina.

„Við erum með köfunarþjónustu sem fæst við allt frá því að vera kenna köfun, við rannsóknir og í svona myndatökur. Við erum aðallega í því að fara með hópa og svo erum við mikið í neðansjávarrannsóknum og myndatökum fyrir Netflix og fleiri efnisveitur,“ útskýrir Erlendur og bætir við að það sé allt mögulegt sem verið er að mynda og rannsaka. „Allt frá þara, hverastríturnar og ýmislegt fleira.“

Skemmtilegt samstarf

Stungið sér í kaf

Kafararnir gera sig klára fyrir köfun við Flatey. Mynd/Stefán Guðmundsson.

 Skipstjóri í leiðangrinum á Skjálfanda var Stefán Guðmundsson, framkvæmdastjóri GG hvalaferða en hann og Erlendur hafa þekkst í mörg ár.

„Við höfum oft rætt um það að vinna meira saman og svo náttúrlega small það saman núna,“ segir Stefán sem var í skýjunum eftir lundaleiðangurinn við Flatey.

„Það eru sjaldséðir lundar þarna inni í Eyjafirði og hann leitaði til mín og spurði hvort það væri mögulegt að fara í svona leiðangur. Hann væri með fjóra unga kínverja og hafði sjálfur áhuga á því að safna sér efni sem hann gæti nýtt í ákveðin verkefni. Það var auðsótt af minni hálfu,“ bætir Stefán við.

Lagt í hann í kaldaskít

Svartfugl í kafi

 Svartfuglar kafa eftir æti og er það mikilfengleg sjón eins og myndin ber með sér. Það er engu líkara en að fuglinn svífi um undirdjúpin. Hér er reyndar ekki lundi á ferðinni heldur líklega langvía. Mynd/Erlendur Bogason.

 Það var norðvestan kaldaskítur þegar lagt var úr höfn á Húsavík eldsnemma um morguninn og haldið út að Flatey á Aþenu úr flota GG hvalaferða.

„Við vorum svo að þreifa fyrri okkur hvað best væri að gera því það er svo margt sem spilar þarna inn í, skyggni í sjónum og hvernig endurvarpið úr botninum er og þar fram eftir götunum. Þetta eru miklu flóknari hlutir neðansjávar heldur en ofan sjávar. Við gerðum þarna fínar tilraunir á þremur stöðum og ég held að það hafi bara vaxið árangurinn á hverjum stað,“ segir Stefán og bætir við að þessir ungu Kínverjar hafi verið mjög áhugasamir.

Erlendur er í einhverju samvinnuverkefni við þessa ungu kínverja og þau voru búin að vera hjá honum í fyrra haust. Þau eru að stunda einhverjar rannsóknir. Þetta tengist hans þjónustu við rannsóknaraðila. Ég gat ekki betur séð en að þetta væri ótrúlega áhugasamt fólk. Tala nú ekki um ef það kemur einu sinni á ári  í fleiri vikur. Við vorum í skýjunum með þetta öll og ég ætla að vona að okkur takist að efla þetta samstarf okkar í framtíðinni,“ segir Stefán að lokum.

Nýjast