20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Hollvinir veittu SAk nýja ferðafóstru
Hollvinasamtök SAk afhentu Sjúkrahúsinu á Akureyri nýja ferðafóstru nýverið sem samtökin höfðu safnað fyrir. Nýja ferðafóstran er ferðahitakassi sem er í raun færanleg nýburagjörgæsla. Hún er útbúin besta mögulega búnaði og sérsniðin að þörfum okkar, segir á vef SAk.
Ferðafóstran er framleidd af Airborne Biomedical og er útbúin fullkomnustu ferðaöndunarvél sem er á markaðinum í dag auk þess sem hún er útbúin öllu því sem gjörgæsla krefst samkvæmt ýtrustu öryggisstöðlum. Þessi nýja ferðafóstra leysir af hólmi tæplega 20 ára gamla fóstru sem Rauði kross Íslands gaf barnadeildinni árið 1998.
„Ferðafóstra er mikilvæg fyrir þær sakir að flytja á vökudeild Barnaspítala Hringsins fyrirbura sem fæðast fyrir 34. viku meðgöngu og aðra nýbura sem fæðast mikið veikir og krefjast sérhæfðari umönnunar en við getum veitt hér á SAk. Hollvinasamtökunum eru færðar sérstakar þakkir en þetta framtak er mikilvægt fyrir okkur á SAk sem og þá sem þurfa á þjónustunni að halda á Norður- og Austurlandi,“ segir á vef SAK.