„Höldumst í hendur í gegnum þetta og styðjum hvert annað“

Aðalsteinn Árni heiðraður fyrir störf sín í þágu félagsins. Ósk Helgadóttir, varaformaður Framsýnar …
Aðalsteinn Árni heiðraður fyrir störf sín í þágu félagsins. Ósk Helgadóttir, varaformaður Framsýnar er með honum á myndinni.

Um þessar mundir eru liðin 30 ár frá því að Aðalsteinn Árni Baldursson var kjörinn formaður Verkalýðsfélags Húsavíkur  sem síðar var sameinað stéttarfélögum í sýslunni undir nafni Framsýnar.

Í tilefni þeirra tímamóta ákvað stjórn og trúnaðarráð Framsýnar að sæma hann gullmerki félagsins fyrir óeigingjörn störf í þágu félagsins. Aðalsteinn Árni bætist þar með í hóp þeirra sem þegar hafa hlotið æðstu viðurkenningu fyrir störf sín í þágu félagsins, sem formenn eða varaformenn. Frá árinu 1996 hafa fjórir einstaklingar hlotið þessa viðurkenningu. Þau eru Helgi Bjarnason, Kristján Ásgeirsson, Kristbjörg Sigurðardóttir og Ósk Helgadóttir. 

 Hleður batteríin í sauðburði

Vikublaðið ræddi við Aðalstein fyrir skemmstu en hann var þá á kafi í sauðburði í Grobbholti, sauðfjárbúi sínu á Húsavík; sem er reyndar miklu meira en áhugasauðfjárbú. Grobbholti má líkja við félagsheimili enda eru gestagangur mikill, sérstaklega á vorin þegar sauðburður er í algleymingi. Hann gaf sé engu að síður nokkrar mínútur til að ræða við blaðamann í tilefni þessara tímamóta. „Nú er maður í raun að hlaða batteríin, að fara í sauðburð og vaka frá sér heilu sólarhringana og vaka allt vit frá sér, þá er maður í réttum gír,“ segir verkalýðsforinginn léttur í bragði áður en talið berst að tímamótunum.

Kúti í grobb

 Hefur séð flest

Aðalsteinn segir að vissulega sé 30 ár langur tími en á meðan verkefnin eru gefandi þá sé tíminn aldrei lengi að líða.

„Maður er búinn að kynnast öllu, allt frá því að eiga við mjög ljót mál en líka margt afar ánægjulegt. Það sem stendur upp úr er að maður hefur reynt að sigla í gegn um þetta með félagsfólki, atvinnurekendum og samfélaginu eins og það leggur sig,“ segir Aðalsteinn og viðurkennir að hann sé hálf meyr á þessum tímamótum; klökkur jafnvel enda hefur kveðjum og hamingjuóskum rignt yfir formanninn í hundraðavís. „Það yljar manni um hjartaræturnar, sérstaklega vegna þessa að þær koma ekki aðeins frá félagsmönnum sem ég hef reynt að standa vörð um heldur líka frá atvinnurekendum og öðrum. Það segir manni að maður hefur gert eitthvað rétt í gegnum tíðina, sem betur fer,“ segir hann.

 Flestir vilja leysa málin

Aðspurður segir Aðalsteinn að það sé misjafnlega auðvelt að semja um kaup, kjör og réttindi félagsfólks eins og gengur og gerist. Viðsemjendur séu sumir harðir í horn að taka en yfirleitt sé hægt að ræða málin og finna lausnir.

„Ég hef stundum sagt við Samtök atvinnulífsins að ég hugsa að atvinnurekendur leiti jafnvel oftar til Framsýnar en þeirra þegar þeir vilja leysa málin. Auðvitað er misjafn hversu auðvelt er að eiga við atvinnurekendur í samningum en eins og ég hef oft sagt þá nálgast maður þessa aðila bara eins og læknir nálgast sjúklinga sína. Maður mætir viðfangsefni sínu af heiðarleika, og oftast er hægt að leysa hlutina. Maður bara vinnur vinnuna sína og er heiðarlegur í nálgun sinni,“ útskýrir Aðalsteinn.

 Framsýn fyrir samfélagið

Kúti og flugið

Aðalsteinn hefur látið til sín taka í opinberri umræðu frá því hann tók við formennsku og verið óþreytandi við að berjast fyrir málefnum landsbyggðarinnar. Hann hefur jafnframt beitt sér á margvíslegan hátt í hinum ýmsu samfélagsmálum, og oft málefnum sem aðrir ættu í raun að leysa. En Aðalsteinn segir að hann líti á það sem skyldu sína að reyna þoka málefnum nærsamfélagsins áfram og neitar því ekki að honum þyki stjórnmálafólk oft á tíðum þurfa heldur mikla hvatningu að sínu mati áður en einhverju sé komið í verk.

„Við erum alltaf í einhverjum verkefnum, t.d. með flugið til Húsavíkur og ég hef verið spurður af hverju við séum að berjast fyrir þessu. Og auðvitað er það eðlileg spurning, en þetta eru bara mál sem eru samfélaginu mikilvæg og maður horfir upp á getuleysi stjórnmálanna til að takast á við þessi mál. Auðvitað getur maður ekki annað en látið sig þessi mál varða og reynt eins og maður getur að opna augu þeirra sem taka ákvarðanirnar sem við þurfum að lifa með,“ segir Aðalsteinn ákveðinn.

Hann segir að  sinn hugur snúist fyrst og fremst um það að efla samfélagið sitt öllum íbúum til góða.  „Við eigum að efla okkar svæði innan frá. Ég vil ekki að við séum endalaust að tala hvert annað niður, gerum bara góða hluti og eflum svæðið. Það er það sem maður er alltaf að gera.“

 Tilbúinn með skófluna

Og það er fleira en samgöngur sem Aðalsteinn lætur sig varða. Hann leggur sitt á vogarskálarnar til að hvetja rekstraraðila dagvöruverslana til að byggja upp mannsæmandi verslun á Húsavík eins og hann kemst sjálfur að orði. Þá er hann ötull talsmaður þess að byggðar verði íbúðir fyrir tekjulága. „Það  er verkefni sem ég vonast til að verði kynnt í vor. Ég er búinn að berjast fyrir því að fá Bjarg íbúðafélag til að byggja hér sex íbúða raðhús fyrir tekjulága. Það er búið að ganga ágætlega og vantar bara að tekin verði fyrsta skóflustungan. En ég er líka búinn að vera ganga á eftir því að eitthvað gerist í þessum málum, það er það sem þarf oft að gera,“ segir Aðalsteinn.

Aðalsteinn hefur raunar unnið hörðum höndum fyrir stéttarfélag sitt lengur þau 30 ár sem hann hefur gengt formennsku en hann var trúnaðarmaður starfsmanna Fiskiðjusamlags Húsavíkur frá 1981 og er því vel sjóaður í verkalýðsbaráttunni.

 Bjartar og dökkar hliðar

Kúti í safnahúsinu

„Þetta eru vissulega búnir að vera krefjandi tímar. Maður hefur náð ýmsu fram á landsvísu í gegnum kjarasamninga sem maður er stoltur af. En svo eru líka dökku hliðarnar á þessu starfi. Ég hef t.d. fengið morðhótanir nokkrum sinnum, en það hefur yfirleitt verið frá erlendum starfsmannaleigum sem hafa þótt ég vera full harður í réttindabaráttunni. Þetta er ekki bara brosandi vinna frá 8-17 en fyrst og fremst hefur þetta verið farsæll tími og gengið vel. Svo hefur þetta verið ákaflega gefandi, annars hefði maður ekki endst þetta lengi,“ segir Aðalsteinn og bætir við að ekkert af þessu væri mögulegt nema fyrir allt það frábæra fólk sem hann hefur borið gæfu til að vinna með í gegnum árin.

„Það má ekki gleyma  því að ég er búinn að vera með frábært fólk með mér í félaginu og fólkið á skrifstofunni, ég er með tvo starfsmenn sem byrjuðu á svipuðum tíma og ég. Það segir sitt, þó þetta sé krefjandi starf þá höldumst við í hendur í gegnum þetta og styðjum hvert annað. Við þurfum að keyra á samheldnina, það er það sem ég hef gert og mun gera áfram,“ segir Aðalsteinn að lokum.

Nýjast