Gönguleiðir milli Kjarnaskógar og Glerárdals
Í gær voru fyrstu skiltin af samtals ellefu sett upp við hitaveituskúrana við upphaf gönguleiðarinnar að Fálkafelli. Sambærileg yfirlitskort verða sett upp í sumar við öll helstu gatnamót og bílastæði í Kjarnaskógi, Hömrum, Naustaborgum og við Súlubílastæðið. Vel er við hæfi að byrja verkefnið við upphaf Fálkafells-leiðarinnar þar sem mikil aukning hefur orðið í göngu á þeirri leið, m.a. fyrir tilstilli sjálfsprotna verkefnisins: 100 ferðir í Fálkafell.
Til viðbótar skiltunum verður upplýsingagjöf á gönguleiðunum sjálfum aukin með vegvísum á helstu gatnamótum sem auðvelda fólki að rata um svæðið og gera sér grein fyrir vegalengdum.
Á skiltunum má finna QR-kóða þar sem hægt er að fræðast enn frekar um gönguleiðirnar, skoða myndir, erfiðleikastig, hækkun o.fl. Margar gönguleiðirnar eru þegar komnar inn á heimasíðuna halloakureyri.is á meðan verið er að vinna í öðrum og bætast þær við síðar í sumar.
Auk yfirlitsskiltanna hefur verið sett upp fræðsluskilti um sögu hitaveitu á Akureyri en sú saga hefst einmitt í námunda við upphaf gönguleiðarinnar að Fálkafelli.
Að verkefninu koma Akureyrarbær, Ferðafélag Akureyrar, Minjasafnið á Akureyri, Skógræktarfélag Eyfirðinga, Hamrar útilífsmiðstöð skáta auk Norðurorku með veglegum styrk frá SSNE. Blek ehf. sá um hönnun skiltanna.
Þeir sem vilja prenta út gönguleiðakortið geta nálgast það hér.
Frá þessu segir á akureyri.is