20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Fljótasta amma landsins
Ásdís Kr. Melsted kallar ekki allt ömmu sína en ekur um á Teslu Model S Plaid með einkanúmerinu GRANNY en eins og flestir átta sig á útleggst það á okkar ylhýra sem AMMA. Ásdís fagnaði 50 ára afmæli sínu í vor en hún starfar sem stuðningsfulltrúi í Borgarhólsskóla á Húsavík. Á sumrin lætur hún adrenalínið flæða og tekur þátt í líklega hröðustu íþrótt landsins, spyrnu.
Ásdís á palli eftir keppni í Hafnarfirði á dögunum.
„Ég er í Bílaklúbbi Akureyrar þar sem vel hefur verið tekið á móti mér. Klúbburinn er einmitt 50 ára á þessu ári eins og gamla,“ segir Ásdís og hlær.
Spyrna er keppni í að ná stysta tíma á beinni braut af ákveðinni lengd og eru yfirleitt tvö keppnistæki ræst hlið við hlið.
Flestir þekkja keppni í kvartmílu, þar sem ekin er 1/4ði úr mílu, en einnig er keppt í götuspyrnu (1/8 míla) og sandspyrna, þar sem keppt er á möl eða sandi.
Í spyrnu skiptir mestu að vera fljótur af stað, án þess að þjófstarta og einnig að ná góðu gripi og hraða í brautinni.
Hafði aldrei prófað áður
Karlmenn eru í miklum meirihluta í spyrnunni en Ásdís gefur þeim ekkert eftir og skilur þá eftir í rykinu.
Ásdís keppir í áttungs mílunni sem er 201 meter frá start í flokki sem kallast 6:30 en það þýðir að hún má í rauninni ekki vera fljótari en það.
Ásdís segir að hún eigi sér enga sögu í þessari íþrótt en hún prófaði í fyrsta sinn í fyrra sumar. Aðspurð hvað hafi dregið hana inn í akstursíþróttirnar svarar hún að það hafi einfaldlega verið bílakaupin á heimilinu.
„Við keyptum þessa Teslu og hún er náttúrlega mjög öflug, ein 1100 hestöfl og hún er 1,9 sekúndur í hundrað,“ segir Ásdís og bætir við að það leysi út 1,4 g í hröðun en það táknar hraðaaukningu hlutar í frjálsu falli vegna þyngdarkrafts jarðar.
Kallinn féll í yfirlið
„Þetta er ógeðslega gaman. Jóhannes Haukur, kallinn minn prófaði þetta og ætlaði að keppa sjálfur en það bara líður yfir hann þegar hann gefur henni í botn; eða það hefði liðið yfir hann ef hann hefði ekki slegið af strax. Þá ákvað ég bara að prófa þetta og það gengur svona rosalega vel,“ segir Ásdís og endurtekur hvað henni þykir þetta ógeðslega gaman.
Finnst gaman að pirra kallana
Aðspurð hvort einhver saga sé á bak við einkanúmerið Granny, segir Ásdís að hún sé náttúrulega amma. „Svo pirrar þetta líka kallana,“ segir Ásdís og hlær, en hún etur aðallega kappi við karla á miklum bensínhákum. Það sé aðeins á Bíladögum á Akureyri sem boðið er upp á sér rafbílaflokk.
Á toppnum eftir tvær keppnir
Slakað á og sólað sig á meðan beðið er eftir keppni.
Ásdís keppir bæði á Íslandsmeistaramótinu og bikarmeistaramótinu en um er að ræða stigakeppni yfir sumarið. Fimm keppnir hvort. Í þessum skrifuðu orðum hafa farið fram tvö mót í hvorri keppni og hefur Ásdís gert sér lítið fyrir og sigrað þau öll, enda stefnir hún á báða titlana.
„Já, ég er búin að vinna allar keppnirnar sem eru búnar að vera í sumar. Svo var ég líka að keppa í fyrra sumar en þá þurfti ég líka að verma annað og þriðja sætið þó ég hafi unnið slatta,“ segir Ásdís og bætir við að það komi ekkert annað til greina en að landa báðum titlunum.
Viðbragðsfljót amma
„Af því að þetta eru bara ríflega 6 sekúndur í þessum keppnum þá er viðbragðið það sem skiptir öllu máli. Og þó ég segi sjálf frá þá er ég bara helvíti góð þar,“ útskýrir Ásdís og bætir við að það sé fullt af fólki sem er að keppa í þessu og leggur enn og aftur áherslu á hvað þetta er gaman.
Blaðamaður sem veit lítið meira um bíla en að þeir komi yfirleitt á fjórum hjólum spyr þá hvort bílum sé eitthvað breytt til að geta keppt í þessu en Ásdís segir það ekki eiga við um Tesluna sína. „Þetta er bara Tesla úr umboðinu – við kaupum hana bara svona og getum keyrt hana út á götu.“
Hættir mögulega á toppnum
Aðspurð hvað framtíðin beri í skauti sér segist hún ætla að sjá til. „Þegar og ef maður er búinn að taka íslandsmeistaratitilinn og bikarmeistaratitilinn, þá lætur maður kannski gott heita og hættir á toppnum en það er alveg óráðið enn þá. Það eina sem ég er búin að ákveða er að klára sumarið á toppnum,“ segir Ásdís ákveðin og bætir við að Bílaklúbbur Akureyrar geti alltaf tekið við fleiri félögum.
Ég hvet alla til að koma og prófa þetta sport. Þar sem að það er keppt í getu flokkum þá geta venjulegir bílar alveg átt heima i þessu. T.d. er maðurinn minn að keppa á jeppanum sínum. Ég lofa að það verði vel tekið á móti fólki hjá Bílaklúbbi Akureyrar,“ segir þessi fljótasta amma landsins að lokum.