Fjórir norðanmenn unnu brons á Íslandsmótinu í bridge.

Bronshafarnir frá vinstir,   Reynir Helgason, Frímann Stefánsson, Pétur Guðjónsson,  og Björn Þorlák…
Bronshafarnir frá vinstir, Reynir Helgason, Frímann Stefánsson, Pétur Guðjónsson, og Björn Þorláksson Mynd aðsend

Akureyringarnir,  Frímann Stefánsson, Pétur Guðjónsson og Reynir Helgason gerðu góða ferð suður til Reykjavíkur un helgina með Mývetningnum Birni Þorláks þar sem verkefnið var að etja kappi við sterkustu lið landsins í úrslitum Íslandsmótsins í sveitakeppni. Sveitin keppti undir merki Kjöríss.

Eftir fyrstu þrjá spiladagana lá fyrir að að norðamenn voru komnir í úrslit fjögurra efstu sveitanna. Úrslitin voru spiluð í gær í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ. Sveit Kjöríss hóf úrslitin illa og tapaði fyrstu viðureign með miklum mun. En bitu svo í skjaldarrendur. Síðustu tveir leikirnir unnust með dágóðum mun og til að gera langa sögu stutta hneppti Kjörís bronsið. Munaði aðeins einum impa að silfrið félli norðanmönnum i skaut, svo jafn var slagurinn.

Infocapital eru Íslandsmeistarar í bridge 2024, skipuð landsliðsmanninum ogl Akureyringnum Sigurbirni Haraldssyni. Sveit Tick Cad endaði í öðru sæti og Kjörís í þriðja. Mörg ár eru síðan norðlensk bridssveit hefur náð svona árangri í þessu sterkasta móti hvers árs. Þeir Reynir, Frímann og Björn voru allir að spila í fjögurra liða úrslitum í fyrsta skipti. Pétur Guðjónsson er aftur á móti margfaldur Íslandsmeistari og einn öflugasti spilari landsins.

Björn Þorláksson segir í samtali við Vikublaðið að það hafi vakið athygli spilara annarra liða að aðeins fjórir menn spiluðu öll úrslitin hjá Kjörís. Hin liðin voru skipuð þremur pörum þannig að pör fengu reglulega pásu frá spilamennsku en ekki Kjörís. Reyndi því mjög á úthaldið hjá norðanmönnum.

„Góður mórall í sveitinni og baráttuvilji, það held ég hafi skilað þessum góða árangri,“ segir Björn. „Svo var gaman að verðlaunin kæmu loks á degi þegar ég átti afmæli. En félagar mínir eiga stærstan þátt í skemmtilegustu afmælisgjöf lífs míns. Þeir spiluðu allir frábærlega en ég var nú svona og svona,“ segir Björn og hlær.

Í undankeppninni spilaði einnig Tryggvi Ingason, sálfræðingur.

Nýjast