Fiskur með eggjasmjöri og döðlugott
„Ég hef löngum hallast að einfaldleikanum og eftir að yngstu synirnir greindust með fjölþætt fæðuofnæmi stigum við foreldrarnir það skref að kjarna matargerðina og elda allt frá grunni. Sjálf fer ég gjarnan hratt yfir í eldhúsinu, gef mig of sjaldan að uppskriftum en á gott úrval af kryddum og nota þannig innsæið til að fá nýtt stef í útkomuna,“ segir Alma J. Árnadóttir sem sér um matarkrók vikunnar.
Hvítur fiskur í ofni með bræddu mangó-eggjasmjöri og sætri múskat-kartöflustöppu
Fyrir hamfarakokk skiptir máli að hversdagsmatur sé fljótlegur í framkvæmd og ekki þurftafrekur á smáatriðin. Eftirfarandi er skemmtileg hugmynd að súperfljótlegum rétti sem er svo einfaldur að uppskrift er nánast óþörf. Þessi hefur útlitið með sér og hreinlega rennur ofan í barnaskarann.
Hráefni í kartöflustöppuna:
2 sætar kartöflur
2 msk smjör
2-3 msk kókosmjólk, bragðlítil
Salt, pipar og múskatduft
Notið kartöfluskrælara til að afhýða kartöflurnar, skerið í meðalstóra teninga. Sjóðið kartöfluteningana í 10-15 mínútur eða þar til þeir eru mjúkir. Stappið teningana eða maukið í matvinnsluvél með smá af soðinu, smjöri og bragðlítilli kókosmjólk. Kryddið með salti, pipar og örlitlu af múskati. Smakkið til og setjið í fallega skál.
Hráefni í fiskréttinn (þið margfaldið eftir þörfum):
1 vel stórt þorskflak, hlýri, langa eða
hvaða hvítur fiskur sem freistar
2 harðsoðin egg
1/2 þroskað mangó
-
saltað smjör
Flysjið og skerið mangó í litla teninga. Skerið fiskinn í bita, raðið í smurtform og bakið við 200°C í 15-20 mínútur. (Fiskinn má allt eins sjóða í potti þar til suðan kemur upp og láta standa í pottinum með lokið á í 5 mínútur.) Harðsjóðið eggin í 7 mínútur, kælið, takið eggjaskurnina af og skerið í teninga með eggjaskerara. Bræðið smjörið í potti. Raðið fiskbitunum saman á ílangt fat, hvolfið bæði eggja- og mangóteningunum ofan á fiskinn eftir endilöngu og hellið því næst sjóðheitu smjörinu yfir. Berið strax fram. Fiskrétturinn er borinn á borð með múskat-kartöflustöppunni og grænu salati.
Karamellu-döðlugott með maískökumulningi
Hráefni:
360 g steinlausar döðlur
260 g ósaltað smjör
75 g kókospálmasykur
3 dl muldar ósætar maískökur
150 g 70% súkkulaði
Saxið döðlurnar eða setjið í matvinnsluvél. Setjið döðlur, smjör og kókospálmasykur í pott og hitið við meðalhita. Hrærið þar til sykurinn og smjörið bráðnar. Myljið eða brytjið maískökurnar og leggið í botn á álformi. Látið mesta hitann rjúka úr döðlublöndunni og hellið yfir maískökumulninginn, þjappið og látið kólna. Bræðið 70% súkkulaði yfir vatnsbaði og hellið súkkulaðinu yfir blönduna. Látið formið í kæli og geymið í a.m.k. klukkustund. Takið því næst storknað gottið úr forminu með því að hvolfa því á skurðarbretti. Brytjið niður í smáa bita og geymið í ísskáp. Takið bitana úr ísskápnum nokkru áður en á að njóta þeirra til að súkkulaðið nái að mýkjast.
P.s. Ég læt hér fljóta með hvatningarorð Ebbu Guðnýjar vinkonu minnar úr Latabæjarbókinni: „Munið að það er alltaf flókið og jafnvel ógnvekjandi að elda rétt í fyrsta skipti. Í annað skiptið er það miklu minna mál og eldhúsið verður ekki eins mikið á hvolfi og svo í þriðja skiptið erum við orðin eldsnögg og getum jafnvel gengið frá eftir okkur jafnóðum.“