Ferðalag traktors út í Flatey á Skjálfanda
Flatey á Skjálfanda er sannkölluð paradís á jörð þar sem segja má að tíminn hafi staðið í stað. Fyrrum íbúar eyjarinnar og afkomendur þeirra hafa byggt í eyjunni blómlega sumarhúsabyggð en einn þeirra er Stefán Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gentle Giants. Hann fer reglulega með fríðan flokk manna út í eyju til að byggja upp og halda við þeim mannvirkjum sem þar eru.
Traktorinn vildi heim
Í Flatey hefur Stefán verið með lítinn traktor til að auðvelda sér sum verkefnin en honum þarf að halda við eins og öðru. Vegagerðin samþykkti síðasta haust að láta Grímseyjarferjuna koma við í Flatey og kippa traktornum með til Dalvíkur. „Hann var svo fluttur þaðan á Hofsós í skveringu í vetur,“ segir Stefán í samtali við Vikublaðið sem kann þó ekki Vegagerðinni góða söguna, því þegar kom að því að flytja traktorinn til baka sagði Vegagerðin nei.
„Vegagerðin neitaði að klára verkið í liðinni viku, meðvituð um að traktorinn þyrfti að komast sömu leið til baka. Líklega borgum við skattgreiðendur of mikið til Vegagerðarinnar fyrir slík viðvik og afar sjaldgæf,“ segir Stefán og leynir því ekki að hann sé honum þyki Vegagerðin hafa brugðist.
Fordæmin eiga að vera
„Ég er náttúrlega frekar vonsvikinn yfir því að Vegagerðin taki að sér að flytja fyrir eyjaskeggja í land og það var talað um það þegar þessi gripur færi í land, að hann þyrfti að komast út í eyju aftur að voru. Svo bara standa menn ekki við það. Slíkt getur sett allt úr skorðum þegar menn hafi ekki aðra kosti augljósa. Ég held að Vegagerðin þurfi að fara taka sig á og reyna að nýta þessa farkosti fyrir fleiri en bara á fasta rútur þegar svona tilvik koma upp. Það eru nú einu sinni við skattgreiðendur sem erum að halda þessu uppi,“ segir Stefán.
Aðspurður hvort einhverjar skýringar hafi fengist frá Vegagerðinn um hvers vegna hún gæti ekki skilað traktornum aftur út í Flatey segir Stefán að sú skýring hafi ekki verið viðundandi að hans mati. „Bara að þeir væru hættir að gera svona og þetta gæti skapað fordæmi. En það er fullt af fordæmum fyrir svona viðvikum og þau eiga líka að vera. Það er málið. Það eru eyjar í kringum landið sem geta þurft viðvik og þá eiga menn að leysa það. Við borgum fyrir þessa þjónustu en Vegagerðin vill ekki veita hana,“ segir hann.
Sleipnir kom til bjargar
Stefán tók þó gleði sína á ný því samningar tókust á ögurstundu við Húsavíkurhöfn um að nota dráttarbátinn Sleipni, sem er í eigu Akureyrarhafnar, en leigður til Húsavíkurhafnar. Stefán undirbjó flutningana vel og var búinn að mæla allt á öllum stöðum niður í sentimetra og skipuleggja aðgerðina frá A-Ö, jafnt sjávarstöðu og tímasetningar. „Við höfðum bara gærdaginn í verkið og hádegisflóðið. Sleipnir stoppaði í 5 mínútur í Flatey. Það tók 30 sekúndur að keyra traktorinn frá borði á hárréttri sjávarstöðu,“ útskýrir Stefán og bætir við að mælingar hafi verið hárnákvæmar.
Gekk eins og í sögu
„Þetta var upp á sentimeter, ég fór út í eyju daginn áður og stóð á bryggjunni á háflóði og fór með tommustokkinn niður að sjó, þetta var gert svoleiðis. Svo vissi maður að þetta var hæsta staða á mælingardegi og að hún myndi lækka um 7 cm daginn eftir þegar traktorinn var fluttur. Þetta var allt sett upp miðað við það og ég er ekki viss um að það hafi verið meira en einn cm upp í plankana þegar Sleipnir sigldi með þá að bryggjunni,“ segir Stefán og bætir við aðspurður að það séu alltaf nóg af verkefnum í Flatey.
„Það er alltaf einhver verkefni á hverju ári. Það er svo gaman að fara með þetta gengi að þetta er eins og mesta skemmtun og frí í bland þó það sé náttúrlega verið að vinna alveg botnlaust. Núna erum við að skipta um eldhús í fjölskylduhúsinu,“ segir Stefán að lokum.