Félagar í Búsögu gera upp gömul útihús í Saurbæ
„Við stefnum á að opna sýningu í Saurbæ á næsta ári,“ segir Sigurður Steingrímsson formaður Búsögu, búnaðarsögusafns sem er félag áhugafólks um söfnun og varðveislu dráttarvéla og annarra tækja sem tilheyra búnaðarsögunni. Félagsmenn hafa unnið hörðum höndum að því að gera upp gömul útihús við Saurbæ í Eyjafjarðarsveit , m.a. fjárhús í því skyni að koma þar fyrir gömlum dráttarvélum til sýnis. Unnið var að kappi um liðna helgi að koma dráttarvélunum inn í nýja sýningarsalinn og létu sjálfboðaliðar hörkufrost ekki hafa mikil áhrif á vinnugleðina.
Sigurður segir að markmiðið sé að opna sýningu í Saurbæ á næsta ári sé ljóst að allt húsnæðið verði ekki tilbúið sem sýningarsvæði. Fjárhúsið, þ.e. það svæði þar sem dráttarvélarnar voru settar inn á um helgina er tilbúið. „Næsta verkefni er fjósið, sem er langt komið, en þar er stefnt á að setja upp sýningu sem hefur tengingu við kýr, mjaltir, meðferð mjólkur, flutninga og þróun á sviði mjólkurframleiðslu á síðustu öld,“ segir hann en Guðjón Samúelsson teiknaði fjósið á Saurbæ og var það byggt í kringum árið 1930. Hluti af steyptum innréttingum frá þeim tíma mun halda sér og verða hluti af sýningunni. Hlaðan er stærsta byggingin og segir Sigurður að þar verði í framtíðinni væntanlega sýning bæði á dráttarvélum og ýmsum tækjum og búnaði sem tengdur var við þær, bæði til jarðvinnslu og heyskapar.
Sýni þróun tækninnar við bústörfin
„Við höfum á okkar stefnuskrá til framtíðar litið að sýning Búsögu í Saurbæ muni sýna þróun á tækni við bústörf yfir síðustu öld. Þar munum við sennilega hafa eitt stykki af hverri gerð sem varpar ljósi á söguna,“ segir Sigurður og bætir við að félagið hafi notið velvilja Eyjafjarðarsveitar við verkefnið sem og verktaka í sveitarfélaginu vegna framkvæmda. Skútaberg hafi stutt félagið myndarlega þegar steypt var í gólfin. Tekjur félagsins koma af félagsgjöldum en stærstur hluti þeirra vegna sölu á dagatölum sem prýtt er með myndum og upplýsingum um gamlar vélar. Dagatölin er hægt að panta hjá Sigurði og á busaga@simnet.is.
Félagið Búsaga var stofnað árið 2011. Það hefur staðið fyrir fjölda sýninga á gömlum dráttarvélum og tók ávallt þátt í Handverkshátíð á Hrafnagili þegar hún var. Eins hafa félagar sett upp sýningar á Akureyri og tekið þátt í sýningu á Hvanneyri.
Húsin héldu hvorki vatni né vindi
Sigurður segir að mest orka félagsmanna fari í að græja húsin á Saurbæ, en félagið fékk aðstöðu þar eftir talsvert þref við ríkið sem á staðinn. „Það tók talsverðan tíma að komast inn í húsin með okkar gripi, það reyndist torsótt leið að fá þetta í gegn en hafðist að lokum,“ segir hann. Búsaga naut liðsinnis Eyjafjarðarsveitar og skipti það máli varðandi það að félagið fékk afnot af húsunum. „Það var gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að fá húsin til afnota en vissulega var sá hængur á að þau héldu hvorki vatni né vindi. Það var því ljóst að gera þyrfti verulega endurbætur á húsnæðinu til að gera það sýningarhæft,“ segir Sigurður. Frá því samningur var undirritaður við Eyjafjarðarsveit árið 2016 hafa félagsmenn unnið markvisst við lagfæringar á húsnæðinu. Stærsta og umfangsmesta framkvæmdin var við þakið á hlöðunni sem var úr asbesti og víða illa farið, hlutar úr því voru farnir að dreifast um nánasta umhverfi.
Gott að fá heita kjösúpu á köldum degi í gamla eldhúsinu í Saurbæ. Frá vinstri, Pétur Jóhannsson, Bjarni Krisjánsson, Jón Jónsson, Jóhann Tryggvason, Hjörtur Haraldsson, Jóhannes Sigtryggsson og Húni Zophoníasson
Það er aldrei leiðinlegt hjá Búsögumönnum. Frá vinstri Jóhannes Sigtryggson Sigurður Steingrímsson Hjörtur Haraldsson Jónhann Tryggvason og Húni Zophoníasson