Fara ótroðnar slóðir
Kristján Phillips og Geir Ívarsson ákváðu árið 2009 að troða ótroðnar slóðir og hefja kræklingarækt í Skjálfandaflóa og stofnuðu utan um það fyrirtækið Víkurskel. Aðspurður segir Kristján að þetta hafi aðallega komið til því þá vantaði eitthvað að gera. „Það var ekkert að gera hér á Húsavík á þessum árum þannig að við ákváðum að reyna búa til einhverja atvinnustarfsemi sem myndi virka, það virtist enginn vera gera neitt hérna,“ segir Kristján. Áður en langt um leið breyttust þó plönin hjá Víkurskel. „Kræklingurinn var ekki að gera sig, það var svo mikil vinna við þetta og hann var heldur ekki alltaf að halda sér á línunum þar sem hann átti að vera þannig að við misstum þetta allt saman,“ útskýrir Kristján.
Árið 2013 hófst annar kafli í þessu ævintýri þegar þeir hófu tilraunarækt á ostrum. Aðdragandinn var reyndar eitthvað lengri því það tók sinn tíma að fá öll tilskilin leyfi enda ostrur ekki hluti af náttúrulega lífríki við Íslandsstrendur. „Þetta þurfti að fara í gegnum sama ferli og krókódílarnir á sínum tíma. Eini munurinn er að við fengum leyfið að lokum,“ segir Kristján og hlær en bætir við að það sé engin hætta á að þetta sleppi úr búrunum. „Ef þetta fer niður á botn þá drepst þetta um leið, þetta er það viðkvæmt.“
Viðtalið má nálgast í heild sinni í prentútgáfu Skarps.