Dagskráin fagnar 50 ára afmæli á árinu
Dagskráin á Akureyri fagnar á þessu ári 50 ára afmæli en útgáfa blaðsins hófst þann 22. desember árið 1968. Dagskráin er öflugasti auglýsingamiðill á Norðurlandi, kemur út á miðvikudögum og er borin inn á hvert heimili og fyrirtæki á Eyjafjarðarsvæð inu. Auk þess liggur hún frammi í verslunum og hjá þjónustuaðilum frá Blönduósi og austur til Vopnafjarðar.
Dagskráin er prentuð í 11.500 eintökum. Kannanir Capacent hafa sýnt að Dagskráin ber höfuð og herðar yfir aðra prentmiðla á svæðinu en yfir 90% af fólki á Akureyri og nágrenni lesa blaðið.
G. Ómar Pétursson, framkvæmdastjóri Dagskrárinnar, segir 50 ára afmælið stóran áfanga fyrir prentmiðil. „Í raun eru þeir ekki margir prentmiðlarnir sem nú koma út sem náð hafa þeim áfanga. Gunnar Berg og félagar voru framsýnir og sáu tækifæri í að hefja útgáfu á auglýsingablaði með sjónvarpsdagskrá. Fyrsta tölublaðið kom út í sömu viku og sjónvarpsútsendingar hófust á Akureyri, rétt fyrir jól 1968. Fyrsta blaðið var fjórar síður og prentað í svart/hvítu.
Ásprent keypti síðan Dagskrána árið 1977 og hefur hún síðan þá verið stór hluti af starfsemi prentsmiðjunnar og í raun og veru kjölfestan í rekstri hennar,“ segir Ómar.
Ótrúlegt fyrirbæri
Óhætt er að fullyrða að Dagskráin sé inngróin í hjörtu bæjarbúa og tekur Ómar undir það. „Dagskráin er í sjálfu sér ótrúlegt fyrirbæri. Það er með ólíkindum að blað sem er nánast eingöngu auglýsingar skuli ná svona mikilli athygli.
Málið er að í gegnum Dagskrána ná bæjarbúar að fylgjast með því sem er að gerast í bænum, á fasteignamarkaði, hjá verslunum og veitingastöðum, skemmtunum og hvers konar uppákomum. Við segjum stundum að séu hlutirnir ekki auglýstir í Dagskránni þá fari þeir ekki fram, “ segir Ómar.
Lengri umfjöllun um 50 ára afmæli Dagskráinnar má sjá í prentúgáfu Vikudags.