20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Byggir á gömlu góðu gildunum úr æsku sinni
Sögin ehf. í Reykjahverfi hlaut á dögunum viðurkenningu frá Creditinfo sem framúrskarandi fyrirtæki árið 2023. Þetta er sjötta árið í röð sem fyrirtækið fær þessa nafnbót. Gunnlaugur Stefánsson framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir í samtali við Vikublaðið að hann sé stoltur af árangrinum undan farin ár.
Eitt elsta trésmíðafyrirtæki landsins
Sögin er sérhæft fyrirtæki í vinnslu og verslun með byggingarvöru úr timbri. Félagið var stofnað 1941 í Reykjavík og er því eitt af elstu starfandi trésmíðafyrirtækjum landsins. Starfsemi fyrirtækisins var lengst af í Höfðatúni 2 í Reykjavík eða allt þar til Trésmiðjan Rein og tengdir aðilar keyptu félagið árið 1999 en þá var framleiðslustarfsemin flutt að Stóru Reykjum í Reykjahverfi við Húsavík.
Öll innlend framleiðsla fyrirtækisins fer nú fram í verksmiðjuhúsnæði félagsins á Stóru Reykjum en söludeild og sýningarsalur er í húsnæði félagsins á Smiðjuvegi 16 í Kópavogi. Sögin flytur einnig inn hálf og fullunnar vörur úr timbri frá erlendum undirverktökum og birgjum í Þýskalandi, Belgíu, Hollandi, Danmörku og Svíþjóð.
„Við erum náttúrlega með frábært starfsfólk og trygga viðskiptavini númer eitt, tvö og þrjú. Svo náttúrlega gömlu góðu gildunum sem manni var kennt í æsku,“ segir Gunnlaugur spurður hverju hann þakki árangur fyrirtækisins.
Sögin er í dag einn stærsti innflytjandi og úrvinnsluaðili landsins á harðviði og liggur að jafnaði með um 100 rúmmetra af harðviði og hágæða furu á lager í ýmsum tegundum og stærðum.
„Við erum með verkstæðið okkar í Reykjahverfinu þar sem við framleiðum vörur úr timbri. Gólflista, gerefti, þröskulda, borðplötur og fleira. Svo erum við með söluskrifstofu í Reykjavík þar sem við flytjum inn vörur sem við látum framleiða fyrir okkur erlendis og komum þeim beint til viðskiptavina. Það er svona helmingur af tekjum félagsins sem koma úr þeirri starfsemi," segir Gunnlaugur.
Blómlegt atvinnulíf í Reykjahverfi
Reykjahverfi sem er fámennt dreifbýli rétt utan Húsavíkur hefur vakið athygli fyrir blómlegt atvinnulíf en þar eru mörg öflug fyrirtæki auk Sagarinnar. „Jú það hefur alltaf verið öflugt atvinnulíf í Reykjahverfinu og það er mjög merkilegt. Maður sér það bara á lista yfir fyrirtæki í þessum samfélögum í Þingeyjarsveit, þá erum við með fjögur a.m.k. Þetta hefur verið ríkt í íbúum Reykjahverfisins og þetta byggir á gömlum og traustum grunni,“ segir Gunnlaugur og bætir við að sjö stöðugildi séu í Söginni. „Þar af tvö í Kópavogi og sá þáttur í starfseminni hefur vaxið á undanförnum árum. Þar sem við látum framleiða fyrir okkur vörur erlendis og seljum frá erlendum samstarfsaðilum okkar,“ segir Gunnlaugur að lokum.