Boðið upp á aðstæður til að þroskast við breyttar aðstæður

Þessi vörpulegi hópur var stofnaður til að ræða stöðu geðheilbrigðismála á Norðurlandi. Frá vinstri …
Þessi vörpulegi hópur var stofnaður til að ræða stöðu geðheilbrigðismála á Norðurlandi. Frá vinstri eru Kristján Már Magnússon sálfræðingur, Hlynur Már Erlingsson sálfræðingur, Brynjólfur Ingvarsson geðlæknir, Fjölnir Guðmannsson heilsugæslulæknir og Rúnar Friðriksson starfsmaður félagsþjónustu Fjallabyggðar. Myndir/Rúnar Friðriksson.

Undirbúa nýtt þjónustuúrræði fyrir karla með fíknivanda og geðraskanir - Um 60 karlar í hópnum. Ekkert úrræði og staðan slæm. Mikill ávinningur fyrir einstaklingana og samfélagið


 

Brýn þörf er fyrir þjónustuúrræði fyrir karla á sem eiga við fíknivanda og geðraskanir að stríða. Engin eiginleg meðferðarúrræði  eru fyrir hendi og hefur þessum körlum á stundum verið komið fyrir í hér og hvar, m.a. á hjúkrunarheimilum. Undanfarin misseri hefur hópur sem kallast Skref til bata unnið að því að koma upp heimili fyrir þennan hóp á Akureyri þar sem boðið verður upp á meðferð og endurhæfingu og stefnt að útskrift í sjálfstæða búsetu að henni lokinni.Skref til bata

Í hópnum eru þeir Brynjólfur Ingvarsson geðlæknir, Hlynur Már Erlingsson sálfræðingur, Fjölnir Guðmannsson heilsugæslulæknir, Kristján Már Magnússon sálfræðingur og Rúnar Friðriksson starfsmaður félagsþjónustunnar í Fjallabyggð. Unnið hefur verið að undirbúningi verkefnisins frá því vorið 2022. Óskað hefur verið eftir styrkjum frá Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og Heilbrigðisráðuneyti til að koma málinu í farveg.

Kristján Már segir að lausleg könnun sem gerð hafi verið m.a. hjá forsvarsmönnum félagsþjónustu sveitarfélaganna í Eyjafirði hafi leitt í ljós að í það minnsta 60 einstaklingar eigi við fíknivanda og eða geðraskanir að stríða og fái ekki meðferð eða endurhæfingu við hæfi. Þörfin sé að líkindum meiri því margir hugsanlegir notendur hafi sig lítt í frammi og koma ekki við sögu hjá sveitarfélögunum.

8 til 10 karlar í einu

„Meðferð sem Skref til bata mun bjóða  upp á verður í einu ætluð fyrir 8 til 10 karla með fíknivanda og alvarlegar geðraskanir. Þar yrði þeim boðið upp á aðstæður til að þroskast við breyttar aðstæður og eflandi samskipti við starfsfólk og jafningja,“ segir hann. Hann segir úrræðið ekki ætlað til varanlegrar búsetu heldur  stefnt að því að útskrifa karlana að lokinni meðferð og endurhæfingu eftir 8 til 10 mánuði. Unnið verði í samvinnu við sveitarfélög að því að þeir sem hafa lokið meðferð fari í sjálfstæða búsetu og eftir þörfum eftirfylgd á vegum félagsþjónustunnar, ýmist í heimahús, á leigumarkað, í félagslegar íbúðir eða félagslegar íbúðir með stuðningi eða á sambýli.

„Staðan hjá okkur á Norðurlandi er ekki góð hvað þennan hóp varðar. Ekkert áfangaheimili er starfandi á Akureyri, en þörf fyrir slíkt heimili er orðin mikil enda anna þau heimili sem fyrir eru í landinu engan vegin vaxandi þörf. Fyrir okkur vakir að bæta þar úr,“ segir Kristján.

Ekki haft aðgang að meðferð við hæfi

Á sama tíma og þörf fyrir geðheilbrigðisþjónustu hefur aukist verulega á svæðinu hefur þeim úrræðum sem til boða standa fækkað. „Það hefur mikið skort á að fólk með fíknivanda og geðraskanir hafi átt aðgang að meðferð og endurhæfingarþjónustu og það á við um landið allt. Þessi hópur hefur þurft að reiða sig á takmarkaða þjónustu hjá félagsþjónustu sveitarfélaganna, fólki hefur verið komið fyrir í allra handa úrræðum sem alls ekki svara þörfum þessa hóps, eins og á hjúkrunarheimilum, í sjálfstæðri búsetu eða í búsetuúrræðum þar sem alla meðferð eða endurhæfingu skortir. Afleiðing er sú að fólk í þessum hópi hefur þurft á tíðum endurinnlögnum á geðdeild að halda,“ segir Kristján.

„Markmið okkar er að stuðla að auknum lífsgæðum þessara karla,“ segir Kristján en það sé mikill ávinningur fyrir notendur þjónustunnar að finna fyrir aukinni vellíðan þegar vel tekst til og þeir nái tökum á tilverunni og sjálfum sér. Þar að auki spari úrræði af þessu tagi mikil útgjöld til lengri tíma litið fyrir ríkið þegar menn komast á þann stað í lífinu að geta séð fyrir sér.

Sækja um framlag frá ráðuneytum

Hópurinn kynnti verkefnið á fundi með  félags- og vinnumálaráðherra í liðinni viku. Skref til bata hefur óskað eftir 120 milljón króna framlagi á ári frá ráðuneytinu og 30 milljónum króna frá Heilbrigðisráðuneyti. Til að byrja með er gert ráð fyrir að um tilraunaverkefni til tveggja ára verði að ræða. Fáist fé til rekstrarins segir Kristján að hægt væri í fyrsta lagi að hefja starfsemi 1. apríl á næsta ári. Fjárlög fara til umræðu í október og atkvæðagreiðslu lýkur seint í nóvember eða byrjun desember. „Við þurfum tíma til að útvega húsnæði og ráða fólk ef við fáum fjárframlög til að koma úrræðinu í gang,“ segir hann.

Hópurinn skoðaði sambærileg úrræði, Krísuvíkurskólann og Hlaðgerðarkot, sem fjármögnuð eru í gegnum trúfélög og safnanir, en að hluta af tveimur ráðuneytum; félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og heilbrigðisráðuneytinu. Þess tvö heimili anna engan vegin þörfinn fyrir endurhæfingarþjónustu á landinu og því mikilvægt að bjóða upp á svipaða þjónustu norðan heiða.

Tryggt að gæðakröfur verði uppfylltar

Kristján bendir á að Skref til bata falli vel að Stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 sem samþykkt var á Alþingi 2022. „Áform okkar passa að mörgu leyti vel inn í áherslur geðheilbrigðisstefnunnar, en við höfum lagt áherslu á að sú meðferð sem boðið verði upp á í úrræðinu byggist á bestu mögulegu gagnreyndu meðferð, hæfingu og endurhæfingu,“ segir Kristján. Þá gangi hugmyndin um Skref til bata út á samstarf við félagsþjónustu og heilbrigðisstofnanir og að batamiðuð nálgun og valdefling verði lykilþættir þjónustunnar.

„Við viljum að meðferðarþjónusta af þessu tagi verði í boði á Norðurlandi og það er í raun í beinu samhengi við geðheilbrigðisstefnuna þar sem veita á þjónustu í auknum mæli í nærumhverfi notenda.“ Kristján bendir á að Sjúkratryggingar geri ákveðna gæðakröfur til heilbrigðisúrræða sem þær fjármagna. „Við höfum í okkar áformum sjálfir gert þær kröfur að meðferðin byggi á gagnreyndum meðferðarhugmyndum, að starfsfólkið verði fagmenntað og að ákveðið eftirlit verði með starfseminni, þannig að fyrir fram verði  tryggt að staðurinn uppfylli þær gæðakröfur sem gera þarf til heilbrigðisstofnana.“


Athugasemdir

Nýjast