And Björk, of course eftir Þorvald Þorsteinsson frumsýnt á dánardegi höfundarins
Leikfélag Akureyrar frumsýnir And Björk, of course í Samkomuhúsinu föstudagskvöldið 23. febrúar.
And Björk, of course, eftir Þorvald Þorsteinsson, er í senn sprenghlægilegt, óviðeigandi og óþægilegt. Leikstjóri verksins er Gréta Kristín Ómarsdóttir en leikarar eru Jón Gnarr, Sverrir Þór Sverrisson, Eygló Hilmarsdóttir, Urður Bergsdóttir, Davíð Þór Katrínarson, María Pálsdóttir og María Heba Þorkelsdóttir.
Þorvaldur var myndlistarmaður og rithöfundur en fyrir utan And Björk, of course er hann einna þekktastur fyrir barnaleikritið Skilaboðaskjóðan og bækurnar um Blíðfinn. Þorvaldur lést langt fyrir aldur fram árið 2013 en forlögin ein réðu því að frumsýningin féll á dánardag hans. „And Björk of course var skrifað fyrir rúmum tuttugu árum og birtist okkur í dag einsog spádómur um afdrif íslensku þjóðarsálarinnar. Andi höfundarins, Þorvaldar Þorsteinssonar, hefur svifið yfir vötnum og fyllt okkur innblæstri allt æfingaferlið svo það er bæði einskær en alls engin tilviljun að frumsýningu beri upp á dánardegi meistarans. Samkenndin er dauð, lengi lifi samkenndin,“ segir Gréta Kristín leikstjóri.
Um leikmynd og búninga sér Brynja Björnsdóttir með aðstoð Bjargar Mörtu Gunnarsdóttur, ljósahönnuður er Ólafur Ágúst Stefánsson en um tónlistina sjá þeir Axel Ingi Árnason og Pétur Karl Heiðarson. Hönnun hljóðs er í höndum Gunnars Sigurbjörnssonar.
And Björk, of course var frumsýnd í Borgarleikhúsinu árið 2002 í leikstjórn Benedikts Erlingssonar og hlaut einróma lof gagnrýnenda. Í kjölfarið var gerð samnefnd kvikmynd í leikstjórn Lárusar Ýmis Óskarssonar. Verkið hefur einnig verið þýtt á erlend tungumál og var frumsýnt í Varia leikhúsinu í Brussel árið 2006.
Í sýningunni er fjallað um eða ýjað að ofbeldi, kynferðisofbeldi, kynþáttafordómum, einelti, fötlunarfordómum, sjálfsvígum og öðru sem getur vakið óþægilegar og erfiðar tilfinningar hjá áhorfendum. Aldursviðmið: 16 ára og eldri.
Sýningafjöldi í Samkomuhúsinu er takmarkaður en verkið heldur suður yfir heiðar í apríl og verður sett upp í Borgarleikhúsinu.