Akureyrardætur hjóla til góðs - Samhjól til styrktar Hjartavernd Norðurlands og Krabbameinsfélagi Akureyrar n.k laugardag

Samhjól á Bjargi n.k laugardag milli klukkan 13-15 til styrktar Hjartavernd Norðurlands og  Krabbame…
Samhjól á Bjargi n.k laugardag milli klukkan 13-15 til styrktar Hjartavernd Norðurlands og Krabbameinsfélagi Akureyrar Mynd aðsend

Allt frá árinu 2018 hafa Akureyrardætur hjólað saman og hvatt aðrar konur á Norðurlandi í hjólreiðum. Akureyrardætur urðu til 2018 þegar 10 konur tóku þátt í Wow Cychlothon og hjóluðu hringinn í kringum landið. Eftir það ævintýri hafa Akureyrardætur hvatt stelpur á öllum aldri til að hjóla en Akureyrardætur standa fyrir samhjólum en þá mæta konur og hjóla saman í mismunandi mörgum hópum allt eftir getu og áhuga. Hugsunin er að allir geti tekið þátt og hjólað á sínum forsendum. Núna eru Akureyrardætur sex ára og ætlum við að halda áfram að halda okkar tilgangi á lofti, sem er, að hvetja og efla konur á öllum aldri að hjóla. Standa fyrir allskonar hjólaviðburðum og styrkja góð málefni. Aðalmarkmiðið er að styrkja málefni sem tengjast konum og heilsueflingu kvenna. 

Árið hófst með nýárshjólagleði þann 4. janúar en þá hjóluðum við á líkamsræktarstöðinni Bjargi og hófum að safna inn á styrktar reikning Akureyrardætra. Næsta verkefni verður næstkomandi laugardag þann 13.4 frá kl 13-15. Þá verður styrktar samhjól á Bjargi sem við hvetjum alla áhugasama að mæta á hvort sem er til að hjóla eða bara hitta okkur og fá sér veitingar. Hægt verður að skrá sig í hjólaviðburðinn á síðu Akureyrardætra. Meðan viðburðurinn stendur verða veitingar í boði og að lokum munum við afhenda styrki til Hjartaverndar Norðurlands og Krabbameinsfélags Akureyrar. 

Eins og ávallt hefur komið fram í umfjöllum um Akureyrardætur þá er mikilvægur málstaður að hvetja komur á öllum aldri til að nota hjólreiðar til gleði og samveru en um leið sem ávinning til að efla sína heilsu. Mjög stór hluti sjúkdóma sem herja á konur eru Hjartasjúkdómar og krabbamein og hreyfing er mjög mikilvæg forvörn.  

 

Hjartavernd Norðurlands.  

 Miklar framfarir hafa orðið í hjartalækningum síðustu áratugi og sú bragarbót sem orðið hefur á lífsstíl þjóðarinnar, einkum með minni tóbaksreykingum, hefur leitt til færri dauðsfalla og örkumla af völdum hjartasjúkdóma en áður var. Mikið verk er þó óunnið og mun hækkandi meðalaldur þjóðarinnar, innöndun nikótíngufu og  þyngdaraukning birta nýjar áskoranir í forvörnum, lækningum og umönnun hjartasjúklinga á komandi árum. 

Hjartavernd Norðurlands er almannaheillafélag stofnað árið 1965. Fyrstu áratugina gekk félagið undir nafninu Hjarta- og æðasjúkdómavarnarfélag Akureyrar og nágrennis og lýsir heitið ágætlega þeim tilgangi að berjast gegn þeim sjúkdómum sem nefndir voru í heiti þess. Sjúkdómar í blóðrásarkerfi, eins og hjarta- og æðasjúkdómar eru kallaðir í dánarmeinaskrá landlæknisembættisins, hafa flest undanfarin ár verið algengasta dánarorsök kvenna á Íslandi. Árið 2022 létust 178 konur á hverjar 100 þúsund konur í landinu af þessum orsökum. Fjórum áratugum fyrr voru það 221 kona sem lést af völdum hjarta- og æðasjúkdóma á hverjar 100 þús. konur. Tölurnar gefa hugmynd um þær miklu framfarir sem orðið hafa í forvörnum, lækningum og eftirfylgni með hjarta- og æðasjúkdómum á tímabilinu. Lækkunin hefur þó verið minni hjá konum en körlum þar sem tíðnin 2022 var aðeins 57% af því sem hún var 1982 hjá körlum en 80% hjá konum. Einkenni hjartasjúkdóma eru önnur hjá konum en körlum og því er gagnlegt að leita sér upplýsinga um vernd hjartans á netinu. 

Hjartavernd Norðurlands hefur beitt sér fyrir aukinni þjónustu í hjartalækningum og að bættri þjónustu við sjúklinga og fjölskyldur þeirra. Félagið hefur haldið vakningarfundi og reynt að stuðla að heilsueflingu með því að mæla blóðsykur bæjarbúa á förnum vegi. Félagið tók þátt í stofnun HL-stöðvarinnar á sínum tíma. Það hefur úthlutað styrkjum til rannsókna og til tækjakaupa á heilsugæslur og sjúkrahús, allt í þágu þeirra markmiða að berjast gegn hjarta- og æðasjúkdómum, útbreiðslu þeirra og afleiðingum, eins og segir í stofnskrá félagsins. 

Hreyfing er lykilatriði í því að vinna gegn aukningu hjarta- og æðasjúkdóma. Göngutúrar, sund eða hjólreiðar bæta líf og heilsu allra, karla og kvenna á öllum aldri. Hreyfing styrkir hjartað og því fylgir bæði gleði og þægileg þreyta að hreyfa sig umfram brýna nauðsyn. Hjartavernd Norðurlands hvetur alla til þess. 

 

Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis 

Akureyrar og nágrennis veitir fólki sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendum þeirra fjölbreytta þjónustu. 

Félagið býður upp á stuðning og ráðgjöf í formi viðtala, skjólstæðingum að kostnaðarlausu. Boðið er upp á fræðslu, fjölbreytt námskeið, málþing, heilsueflingu, jafningjastuðning í karla- og kvennahópum, Eirbergs þjónustu og ýmsa aðra viðburði. 

 Á hverju ári greinast 916 konur með krabbamein hér á landi (Krabbameinsskrá) en það er hægt að koma í veg fyrir 4 af hverjum 10 krabbameinum með heilsusamlegum lífsstíl. 

 Félagið leggur því áherslu á að hvetja fólk til hreyfingar og minna á forvarnargildi hennar. 

 Við bjóðum okkar skjólstæðingum upp á regluleg Yoga nidra námskeið í samstarfi við Sjálfsrækt. Eins er hægt að sækja um styrk fyrir korti í líkamsræktarstöðvar, Minningarsjóður Baldvins fjármagnar það.  Göngum saman hópurinn fer í vikulegar göngur og við hvetjum okkar félagsmenn til að nýta sér það. Einnig eru hóptímar á Bjargi líkamsrækt og sundhópur sem ætlaðir eru fyrir fólk sem er í meðferð eða í uppbyggingu eftir meðferð. Frekari upplýsingar má finna á heimasíðunni okkar: https://www.kaon.is/is/thjonusta/heilsuefling 

 Við erum Akureyrardætrum þakklát fyrir að hugsa til félagsins og aðstoða okkur við að hvetja konur til að hreyfa sig. Það er líka svo mikilvægt að fólk finni sér hreyfingu sem því finnst skemmtileg, hreyfing þarf ekki bara að vera það að fara í ræktina og djöflast í klukkutíma! Öll hreyfing gerir gagn og það er aldrei of seint að byrja. Svo við hvetjum allar konur sem hafa áhuga á að kynna sér starfsemi Akureyrardætra og skella sér í hjólatúr með þeim. 

Nýjast