20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Afhentu gullabú við útskrift barna sinna
Það er hefð fyrir því þegar nemendur leikskólans Grænuvalla á Húsavík nálgast útskrift að gera sér glaðan dag. Síðustu ár hafa foreldrahóparnir gefið leikskólanum gjafir í tilefni útskriftar en í ár var gjöfin ekki af verri endanum; gullabú á útkennslusvæði leikskólans í Holti. Fyrir þá sem ekki vita er gullabú einskonar leikbú, í þessu tilfelli eldhús.
Börn sem eru fædd árið 2018 tóku gullabúið formlega í notkun á mánudag ásamt foreldrum sínum í sannkallaðri rjómablíðu eins og meðfylgjandi myndir bera með sér.
Myndarleg gjöf
„Pælingin er að foreldrahópar næstu ára viðhaldi eldhúsinu eða gullabúinu eins og ég kalla þetta en mér skilst nú reyndar að það þekki þetta enginn sem gullabú hér á Húsavík. Fyrir austan á Egilsstöðum vita allir hvað gullabú er,“ segir Sigríður Valdís Sæbjörnsdóttir, skólastjóri Grænuvalla í samtali við Vikublaðið.
„Þetta er miklu meira en eldhús, það eru eldavélar og þrír vaskar, gluggi sem er hægt að afgreiða í gegn um og pípur til að láta vatnið renna um og svo er talía til að nota til að sækja vatn í lækinn. Það þarf náttúrlega vatn í öll eldhús,“ útskýrir Sigríður Valdís.
STEMning í Holti
Hún segir jafnframt frá því að starfsfólk skólans hafi farið til Danmerkur á síðasta ári þar sem þau kynntu sér STEM í leikskólastarfi. „Við urðum flest heilluð upp úr skónum og ég held að þessi hugmynd sé svolítið sprottin upp úr þeirri ferð,“ segir Sigríður Valdís og bætir við að Grænuvellir hafi nýverið fengið styrk frá Sprotasjóði til að innleiða STEM á Grænuvöllum í samtarfi við STEM-Húsavík.
„Það sem mér finnst svo frábært við þetta er að svona lagað styrkir svo hópsálina hjá foreldrum sem er svo mikilvæg hópsálinni hjá börnunum. Þetta er frábært tækifæri til að þjappa saman foreldrahópnum og kynnast. Þau eiga náttúrlega eftir að fylgjast að næstu tíu árin í gegnum grunnskólann,“ segir Sigríður Valdís og bætir við að öll hafi átt ánægjulegan dag í Holti á mánudag þar sem boðið var upp á djús og kex. „Nú þurfum við starfsfólkið að skipta okkur niður á þetta fína gullabú því nú vilja náttúrlega allir fá að prófa.“
Stolt Grænuvalla
Fyrir þá sem ekki vita er Holt, fallegt útisvæði í Sprænugili en Jan Klitgård byggði þar myndarlegt skýli fyrir leikskólann fyrir nokkrum árum sem hefur mikið verið notað síðan. Þetta er geggjað og ég efast ekki um að aðrir leikskólar í nágrenninu vilji koma og skoða því þeir hafa alveg komið að skoða Holt. Þetta er frábær viðbót, það er svo ótrúlega mikið sem við erum að ná fram í þessari útikennslu sem er orðin stór partur af starfinu okkar á Grænuvöllum,“ segir Sigríður Valdís að lokum.