100 ferðir á Fálkafell Magnað að sjá hversu vel fólk hefur tekið í þetta

Heiðrún Jóhannsdóttir og Halldóra Magnúsdóttir hafa farið tæplega 80 ferðir á Fálkafell á árinu. Sú …
Heiðrún Jóhannsdóttir og Halldóra Magnúsdóttir hafa farið tæplega 80 ferðir á Fálkafell á árinu. Sú fyrsta var farin 13. janúar og fyrsta markmið var að ná 50 ferðum, nú stefna þær á 100 ferðir. Myndir Aðsendar

„Það er magnað að sjá hversu vel fólk hefur tekið í þetta. Við erum hæstánægðar,“ segir Heiðrún Jóhannsdóttir sem ásamt Halldóru Magnúsdóttur stendur fyrir skemmtilegu hvatningarátaki; 100 ferðir á Fálkafell. Sjálf hefur hún farið tæplega 80 ferðir á árinu, en nokkrir hafa náð því að fara 100 ferðir eða fleiri.

„Ég fór að velta fyrir mér um áramót hvað ég gæti og ætti að gera, en ég hafði verið í hlaupahóp og var nýkomin úr aðgerð og var að finna mér hreyfingu til að halda mér áfram í formi og sem yrði hvetjandi fyrir mig,“ segir Heiðrún sem rakst þá á umfjöllun um 100 ferðir á Úlfarsfell og datt í framhaldinu í hug að gera eitthvað svipað norðan heiða. Fálkafell varð fyrir valinu, enda í bakgarði Akureyringa og við allra hæfi, „Það komast allir upp, þetta er frekar þægileg hæð og fólk fer á sínum hraða, hægt að ganga rösklega eða bara fara rólega yfir og hvíla sig inn á milli,“ segir hún.

Skemmtileg ævintýri á leiðinni

Heiðrún og Halldóra fóru fyrstu ferðina á Fálkafell 13. janúar en þegar kom fram í mars mánuð bjuggu þær til facebook síðu og buðu fleirum að slást í hópinn. „Það var alltaf svo gaman hjá okkur og við lentum í fjölmörgum skemmtilegum ævintýrum á leiðinni að við vildum vekja athygli á þessu og þessu frábæra umhverfi. Bjóða fleirum að upplifa þessa skemmtun, útivist og hreyfingu  og það tókst okkur svo sannarlega. Eftir því sem mánuðirnir liðu bættist alltaf á síðuna og nú eru um 700 manns þar inni, ýmist göngufólk sem segir frá sínum ferðum eða fólk sem hefur gaman af að fylgjast með,“ segir Heiðrún.

Dagamunur þegar ná nýjum tug

Um áramót settu þær Halldóra sér það markmið að fara 50 ferðir á Fálkafell á árinu. „Við höfum ekki meir trú á okkur en það,“ segir hún og bætir við að það sé því ánægjulegra að þolið hafi aukist verulega og þær komnar vel yfir upprunalega markið. „Við miðum við að komast í kringum 10 ferðir í mánuði, til eða frá og það hefur tekist.“

Heiðrún segir að þær Halldóra geri sér dagamun og skáli þegar ferðirnar standi á tugi og einnig taki þær myndir af fótum sínum með útsýni út Eyjafjörð í hverri ferð. Þannig eigi þær ágætar heimildir um veðurfarið þá daga. „Það er um að gera að hafa gaman af þessu um leið og maður eykur þrek og þol,“ segir hún.

Þarf ekki á djammið

Talsverður straumur fólks er á Fálkafell á hverjum degi og segir Heiðrún að margir hafi kynnst á þessu gönguferðum og samfélagið í kringum átakið sé gott. „Nú þarf ekki að fara á djammið til að kynnast fólki, bara taka fram gönguskóna og skella sér á Fálkafell. Þetta er allt saman bara hreint dásamlegt og við erum mjög ánægðar með hvernig þetta hefur þróast,“ segir hún og nefnir sem dæmi að á Akureyrarvöku var velheppnað Pálínuboð í Fálkafelli þar sem skátar sem eiga skálann opnuðu dyr sínar og sögðu sögur af skátastarfi. Nokkrir göngumanna hafi tekið upp á því að styrkja starfsemi skátanna í tengslum við ferðir sínar upp og segir Heiðrún það mælast vel fyrir.

Nýjast