Yfir 100 manns á folaldasýningu í Pcc Reiðhöllinni
Hestamannafélagið Grani á Húsavík og nágrenni stóð fyrir stórglæsilegri folaldasýningu í samstarfi við hestamannafélagið Þjálfa í PCC Reiðhöll félagsins um síðustu helgi. Félagsmenn sýndu sín glæsilegustu folold fyrir margmenni en um 100 manns mættu til að njóta dagsins í Reiðhöllinni
Snæbjörn frá Stóru-Laugum stóð efstur þegar yfir lauk en hann varð hlutskarpastur bæði hjá dómurum og áhorfendum.
Í 2.sæti var Atlas frá Ketilsstöðum og í 3.sæti Kolfreyja frá Bjarnastöðum.
Mjög vel heppnaður dagur sem lauk með kaffiveitingum.
Bjarki Helgason, formaður Grana sagði í samtali við Vikublaðið að dagurinn hafi verið afar vel heppnaður og honum hafi lokið með kaffiveitingum.
„Þetta var eins og stundum hefur verið haldið, menn mættu með sitt folald og lét þau hlaupa einhverja hringi. Svo er verið að meta hvað eigi að segja um þau, hvað þau hlaupa fallega og svo framvegis,“ útskýrir Bjarki og bætir við að hann hafi verið sérstaklega ánægður með að sjá yfir 100 gesti í Reiðhöllinni og þeir hafi allir skemmt sér afar vel.
Hestamannafélagið Grani heldur uppi öflugu starfi ekki síst fyrri unga fólkið en regluleg reiðnámskeið eru haldin í reiðhöll félagsins, bæði fyrir börn og fullorðna.