20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Völvur á Íslandi
Á Norðurlöndum eru til aldagamlar sagnir um konur, sem vissu lengra nefi sínu. Þær eru nefndar á ýmsan veg í fornbókmenntum okkar, en þekktastar eru tvímælalaust völvurnar. Þær nutu mikillar virðingar, enda voru þær á mörkum tveggja heima, ef þannig má að orði komast, og höfðu vitneskju um það, sem flestum öðrum var hulið.
Rannsóknir benda til, að þær íslensku hafi flestar verið öðruvísi en aðrar á hinu norræna áhrifasvæði, það er að segja búandi konur, en hinar farið um á milli bæja og þá gjarnan haft með sér fylgdarlið. Orðspor þeirra var síðra.
Í nýjustu bók minni, sem var að koma út og sem ber sama titil og yfirskrift þessarar kynningar, er saga þeirra allra rakin, allt frá öndverðu og til nútímans, ræturnar — sem ná allt aftur til germanskra þjóðflokka fyrir Krists burð, vel að merkja — og svo arfleifðin, Íslandssagan.
Endurmat á dysjum eða kumlum, bæði hér á landi og erlendis, virðist hafa opnað á þann möguleika, að í einhverjum tilvikum kunni að hafa verið um jarðneskar leifar þessara kvenkyns sjáenda að ræða þar, ekki síst ef fundist hafa teinar ákveðinnar gerðar, sem áður fyrr voru oftast taldir vera mælistikur eða steikarpinnar og jafnvel veiðistangir, en hafa undanfarna þrjá áratugi verið túlkaðir sem galdrastafir, eða þau hafi að öðru leyti verið ríkulega búin og að auki með leifum eða fræjum hamps eða nornajurtar og skyldra tegunda. Ekki er ósennilegt að þau efni hafi verið notuð í lækningaskyni. Kannski til hugvíkkunar líka.
Á Íslandi eru til heimildir um á sjöunda tug völvuleiða. Sumum þeirra fylgja alveg hreint magnaðar sögur, eins og til að mynda frá Tjarnargerði í Leyningshólum í Eyjafirði, en Jónas Hallgrímsson, skáld og náttúrufræðingur, rannsakaði það ítarlega skömmu fyrir miðja 19. öld, einkum stuðlabergsdrangann, meitlaðan táknum, ef til vill rúnum, sem á því er. Þjóðminjavörður friðlýsti hvort tveggja árið 1930. Annað völvuleiði er að finna þar skammt frá, nánar tiltekið í Nesi í Eyjafjarðarsveit (áður Saurbæjarhreppi). Annars eru þau langflest á Austfjörðum og á Suðausturlandi, einhverra hluta vegna. Ekkert er að finna á Vestfjörðum, samt var landnámsmaður Bolungarvíkur völva, Þuríður sundafyllir. Kenning mín er sú, að galdrafári 15.–18. aldar hér á landi sé þar einkum um að kenna.
Þekktasta völvuleiði fyrri alda er á Felli í Mýrdal og er þess getið í ævisögu Jóns Steingrímssonar eldklerks, á 18. öld. En hið kunnasta nú á tímum er líklega það, sem er á Hólmahálsi, milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar. Báðum fylgja miklar sagnir, þeirri síðarnefndu bæði frá 17. öld, í Tyrkjaráninu, og einnig úr síðari heimsstyrjöld.
Svipað er með það sem er í Einholti á Mýrum í Hornafirði, sem og á Kálfafellsstað í Suðursveit.
Á öllum þessum stöðum, auk margra annarra, var áður fyrr litið á þessar merku konur sem verndara byggðarlaganna og er svo raunar enn víðast hvar, þótt ekki sé endilega hátt um það talað nú um stundir.
Gáfa þessara kvenna var meðfædd, en lítið ber á arftökum þeirra fyrr en löngu seinna, aðallega vegna skorts á ritheimildum, þótt annað kunni jafnframt að hafa valdið þögninni. Á 20. og 21. öld koma þrjár öðrum fremur upp í hugann, Margrét Thorlacius frá Öxnafelli í Eyjafirði, Una Guðmundsdóttir í Sjólyst í Garði á Reykjanesi og Erla Stefánsdóttir. Allar eru þær vel að heiðrinum komnar. Og hinar líka.
Sigurður Ægisson er höfundur bókarinnar