27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Vissara að spyrja
Fyrir mörgum árum kom ég í heimahús til að skíra barn. Sex ára bróðir skírnarbarnsins beið spenntur eftir prestinum. Pabbi hans tók mig á eintal og bað mig að fá drengnum eitthvert hlutverk í athöfninni. Hann ætti til að vera dálítið órólegur en væri yfirleitt hinn spakasti ef hann hefði eitthvað fyrir stafni. Þó mætti alls ekki láta hann halda á logandi skírnarkerti. Þá væri eldsvoðinn vís.
Ég kallaði á drenginn, sagði honum að nú þyrfti ég að komast í prestafötin og spurði hvort hann gæti kannski aðstoðað mig. Hann hélt það nú, fylgdi mér inn í herbergi, steig upp á stól til að geta hjálpað mér í skrúðann, lagfærði stóluna á herðum mínum og lokaði síðan fyrir mig ferðatöskunni. Svo vildi hann fá að vita hvað hann ætti að gera meira. Ég gaf honum þau fyrirmæli að hann ætti að standa við hliðina á mér í skírninni og styðja mig ef ég ætlaði að velta um koll.
Eftir að athöfnin hófst tók ég eftir því að stráksi, sem stóð vaktina samviskusamlega þétt við hlið mér, fór að mæla mig út. Stuttu áður en ég jós systur hans vatni kippti hann í hempuna. Ég laut niður og hann hvíslaði:
„Hvað ertu þungur?“