Vinstri græn hafna hugmyndum um Frístund í Safnahúsinu á Húsavík
V-listi VG og óháðra í Norðurþingi sendi frá sér yfirlýsingu í morgun. Tilefni yfirlýsingarinnar er minnisblað, unnið af sveitarstjóra, íþrótta- og tómstundafulltrúa og fjölmenningarfulltrúa. Minnisblaðið sem nýverið var rætt í fjölskylduráði um frístundamál og húsnæði Menningarmiðstöðvar Þingeyinga á Húsavík. Þar var reifuð hugmynd að viðamiklum breytingum á nýtingu Safnahússins á Húsavík, þar sem gengið er út frá því að starfsemi þess húss yrði stokkuð upp en starfsemi Norðurþings fléttuð inn í núverandi safnarými sjóminjasafns og byggðasafns.
Þessum hugmyndum hafna VG í yfirlýsingunni en í henni segir að úrbætur á aðstöðu fyrir frístundastarf barna og ungmenna í Norðurþingi þurfi að gera með öðrum hætti en með því að falast eftir húsnæði Safnahússins á Húsavík undir þá starfsemi. "Safnahúsið er rekið af Menningarmiðstöð Þingeyinga í farsælu samstarfi margra sveitarfélaga og hýsir margvíslega og mikilvæga menningar- og safnastarfsemi. Ef breyta á starfsemi Menningarmiðstöðvarinnar þarf að ræða slíkar hugmyndir við öll sveitarfélögin í Þingeyjarsýslum á yfirvegaðan hátt eftir að nýjar sveitarstjórnir koma saman í upphafi næsta kjörtímabils," segir í yfirlýsingunni.