Viðreisn íslensks landbúnaðar?

Gunnar Már Gunnarsson skrifar
Gunnar Már Gunnarsson skrifar

„Lækkun tollahindrana skapar tækifæri fyrir landbúnaðinn.”

Já, þetta fullyrðir Viðreisn í stefnuskrá sinni. Bætir við: “Endurskoða þarf reglulega áhrif tolla á frjáls viðskipti og matvælaverð.” 

Svo reyndar ekki bofs meir. Punktur. 

Gleymdist að rökstyðja þessa fullyrðingu? Eða er hún svo augljóslega sönn að ekki þarf að fjölyrða neitt um það frekar? Eða er málið kannski svo snúið fyrir almenning að best er að geyma allar langlokur og vefjur til betri tíma?

Jæja, eitthvað var það. Við skulum samt ekki staldra lengur við ástæður og orsakir. Einhendum okkur frekar í verkið og botnum þetta fyrir Viðreisn.

En þá held ég að við reynum að draga saman meðrök og mótrök, og rýnum í helstu forsendur.

BÆTT AÐGENGI AÐ MÖRKUÐUM eða AUKIN SAMKEPPNI FRÁ INNFLUTTUM VÖRUM?

Aðgengi að mörkuðum gæti aukist (með góðum samningum) og þar með útflutningstækifæri fyrir íslenskan landbúnað. Aukin samkeppni getur ýtt undir nýsköpun og bætt framleiðslugæði, sem leiðir til þess að íslenskar landbúnaðarvörur verða samkeppnishæfari erlendis.

eða

Tollalaus og óheftur innflutningur matvæla leiðir til þess að íslenskur landbúnaður verður berskjaldaður fyrir erlendri samkeppni. Harðnandi samkeppnisumhverfi grefur undan greininni og leiðir til gjaldþrota.

Sökum stærðarhagkvæmni, sem verður seint pöruð hér á landi, þá geta innfluttar matvörur verið ódýrari í framleiðslu. Stórframleiðslan úti lýtur ekki alltaf sömu kröfum og innlend framleiðsla, og óvíst að þær afurðir sem enda í verslunum séu samar að gæðum. Sem dæmi, þá er notkun á gróðureyðingarefnum, fúkkalyfjum og öðrum hjálparefnum í landbúnaði á Íslandi einhver sú allra minnsta sem þekkist í heiminum.

Þá má heldur ekki gleyma að landbúnaður erlendis nýtur víða ríkisstyrkja í einhverju formi og því þurfa íslenskir bændur að laga sig að samkeppni við niðurgreiddar matvörur.

ÁVINNINGUR FYRIR NEYTENDUR eða ÓTRYGGT FÆÐUÖRYGGI?

Lækkun tolla á innfluttar matvörur getur leitt til lægri verða sem og aukins vöruúrvals fyrir neytendur.

eða

Samdráttur í innlendri framleiðslu, vegna aukinnar samkeppni, dregur úr seiglu matvælakerfisins. Ef innviðir íslensks landbúnaðar veikjast þá gæti Ísland staðið frammi fyrir verulegum áskorunum þegar kemur að því að viðhalda fæðuöryggi í kreppum. 

Aukinn innflutningur gerir okkur háðari erlendum landbúnaðarafurðum, á sama tíma og spenna ríkir í alþjóðasamskiptum og stríðsrekstur er viðvarandi. Að treysta um of á innflutning ógnar framboði á nauðsynlegum matvælum, nú þegar aðfanga- og birgðakeðjur á heimsvísu geta og hafa rofnað.

HVAÐA SVIÐSMYND ER LÍKLEGUST?

Er líklegt að aðrar þjóðir séu tilbúnar til að afnema tolla og innflutningshindranir, meira en nú þegar er raunin? Þjóðir sem rétt eins og við verja sína landbúnaðarframleiðslu.

Eru augljós, vannýtt tækifæri sem skapast með aukinni samkeppni?

Ég hef mikla trú á íslenskum landbúnaði – en ég veit líka hvaða sviðsmyndir hér að ofan mér finnast sennilegar.

Íslenskur landbúnaður er nú þegar fjölbreyttur og íslenskir bændur afskaplega metnaðarfullir þegar kemur að því að nýta tækifæri innlendrar matvælaframleiðslu til fulls. Við eigum að ýta undir þennan metnað, ýta undir nýsköpun og tryggja að Ísland sé áfram í fremstu röð þegar kemur að gæðum afurða. Við eigum að hafa það markmið að styrkja stoðir íslensks landbúnaðar, þannig að hann sé arðbær og þróist á sjálfbæran hátt til framtíðar. 

Að sjálfsögðu er mikilvægt að tryggja íslenskum heimilum góð kjör, en það er hægt að gera án þess að fórna fæðuöryggi landsins. 

Þess vegna eigum við að setja fram trúverðuga stefnu sem ber virðingu fyrir íslenskum landbúnaði.

Gunnar Gunnarsson, bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri

 

Nýjast