20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Matur handa öllum.
Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands kallað eftir því að stjórnmálaöfl skýri sjónarmið sín í málefnum landbúnaðarins. Það var athyglisvert að heyra málflutning þeirra því staðreyndin er sú að bændum á Íslandi hefur fækkað mikið, sérstaklega í mjólkurframleiðslu þótt að á sama tíma hafi orðið talsverð framleiðsluaukning.
Staða margra bænda er engu að síður þung. Íbúum í sveitum landsins hefur fækkað gríðarlega síðustu áratugi og rekstrarumhverfið er erfitt. Það getur beinlínis hamlað nýliðun ef að fólk óttast að einangrast félagslega við það eitt að verða bændur.
Samtök ungra bænda unnu að því fyrir nýja búvörusamninga 2016 að koma inn ákvæðum um nýliðunarstuðning og forgangi nýliða að úthlutun greiðslumarks mjólkurframleiðslu. Frá þeim tíma hefur upphæð nýliðunarstuðningsins nánast staðið í stað og forgangur nýliða að greiðslumarki í mjólkurframleiðslu minnkaður úr 25% niður í 5%. Þó virðast málefni ungra bænda loksins vera að komast á almenna dagskrá eftir kröftugan baráttufund þeirra í Salnum í Kópavogi, fyrir réttu ári, Laun fyrir lífi, sem kjarnar svo sannarlega stöðu bænda, en sýnir líka stöðuna sem ungt fólk er í, að standa frammi fyrir gríðarstórum fjárfestingum til þess að vinna óheyrilega fyrir lifskjör sem eru ekki alltaf sambærileg við aðrar starfsstéttir í landinu.
Það er bæði hægt að auka framleiðslu í landbúnaði umtalsvert ef pólitískur vilji er til staðar og bæta rekstrarumhverfi bænda mikið.
Ef spár um mannfjölda á Íslandi ganga eftir má reikna með að fæðuþörf þjóðarinnar muni aukast um þriðjung á næstu 30 árum og þeirri þörf verður tæplega mætt með innflutningi eingöngu og það er alls ekki hægt að stóla á hann, óvissa og óstöðugleiki síðustu missera hefur sýnt okkur það.
Það eru því hagsmunir allra sem búa hér að það umhverfi sem landbúnaðurinn býr við sé fyrirsjáanlegt og best væri að áætlun um það hvernig auka skuli matvælaframleiðslu til samræmis við áætlun um fólksfjölgun næstu áratugi.
Ríkja þarf sátt á milli neytenda og framleiðenda matvæla. Oft er vísað til Evrópu í samanburði en þar fara um 30% af útgjöldum Evrópusambandsins í CAP (common agriculture policy) og er rætt um sem sáttmála á milli neytenda og framleiðenda um matvæli, í sátt við umhverfið og þróttmikið dreifbýli. Oft er klifað á því i umræðunni að hérlendis sé stuðningur við landbúnað og matvælaframleiðslu meiri en í öðrum löndum, því fer þó fjarri. Hér á landi leggjum við áherslu á að framleiðsla matvæla sé í sátt við umhverfið, styðji við byggð um allt land og að allir hafi efni á nauðsynjavörum, t.d. með opinberri verðlagningu á sumum mjólkurvörum. Þegar erum við í fremstu röð í heilnæmi matvæla, velferð dýra en fjölmörg tækifæri felast í nýsköpun, tæknilausnum og notkun vistvænni orkugjafa. Matvælaframleiðsla á Íslandi mun aldrei verða samkeppnishæf í kapitalísku markaðshagkerfi þar sem eina markmiðið er lágt verð, án alls tillits til aðstæðna, kjara þeirra sem framleiða, lyfjanotkunar og hvaðan maturinn kemur.
Ég tek heilshugar undir þau sjónarmið sem Bændasamtök Íslands benda á og hvet aðra frambjóðendur og stjórnmálaöfl til að huga vel að því að við getum öll borið íslenskar landbúnaðarafurðir á borð eftir 30 ár!
Höfundur er bóndi, fyrrum formaður Samtaka ungra bænda og situr í 2. sæti á lista VG í Norðausturkjördæmi.