Vindar menningar og gleði á Húsavík
Veður og vindar komu ekki í veg fyrir töfrandi stemningu á Húsavík á laugardag um páskahelgina. Það var fleira en blindandi hríðin sem blés um skemmuportið við Vallholtsveg,- þar réðu vindar menningar og gleði ríkjum.
Tónlistarhátíðin HnoðRi fór þar fram í fyrsta sinn og var mæting með eindæmum góð. Leikar hófust um klukkan sex og stóðu fram yfir 23 og það var fjölmenni í gömlu timburskemmunni og tónlistaratriðin fjölbreytt eins og þau voru mörg.
Einar Óli Ólafsson, skipuleggjandi Hnoðra. Mynd/Aðsend.
Draumur að rætast
Listamaður Norðurþings, Einar Óli Ólafsson stóð fyrir hátíðinni en að hans sögn rættist gamall draumur hans þetta kvöld. Hann var í skýjunum yfir því hvernig til tókst á frumraun HnoðRa þegar blaðamaður heyrði í honum eftir páskahelgina.
„Þetta var framar vonum finnst mér. Frábær mæting og almenn ánægja. Þetta var bara mjög hressandi og skemmtilegt,“ segir Einar Óli kampakátur og bætir við að honum sé enn hlýtt í hjartanu eftir þetta kvöld, þrátt fyrir vetrarhörkurnar.
Erfiðisins virði
Aðspurður hvort það sé gefandi að standa í tónleikahaldi um miðjan vetur segir hann að þegar upp sé staðið sé það vissulega svo. „Þetta var kannski ekki beint gefandi í undirbúningnum sjálfum en svo eftir á þá var erfiðið svo sannarlega þess virði,“ segir hann og tekur fram að þetta hafi hann ekki getað gert einn síns liðs.
„Ég fékk hendur út um allt. Fyrirtækjastyrkir gerðu þetta mögulegt yfir höfuð og svo fékk ég ómetanlega aðstoð frá vinum og ættingjum. Ég vil sérstaklega þakka Heimamönnum fyrir þeirra framlag. Starfsmenn Heimamanna voru á fulla með mér í undirbúningnum,“ segir Einar Óli.
Kominn til að vera
Blaðamanni liggur að sjálfsögðu forvitni á að vita hvort að leikurinn verði endurtekinn að ári en spyr jafnframt hvort Einar Óli þurfi kannski að ná sér niður eftir spennufallið áður en ákvörðun um framhaldið verði tekin. Hann er þó ekki í nokkrum vafa. Hátíðin sé komin til að vera. Annað komi ekki til greina.
„Já, ég er búinn að ná mér niður, nægilega til að lýsa því strax yfir að Hnoðri verður haldinn aftur á næsta ári. Um leið og ég sá hvað margir mættu, þá tók ég strax ákvörðun um að Hnoðri fengi framhaldslíf,“ svarar Einar Óli ákveðinn.
Lán í óláni
Nú var veðrið ekkert að gera norðlenskum viðburðahöldurum greiða enda stóð páskahretið í ár svo sannarlega undir nafni. Einar Óli segir að veðrið hafi þó ekki komið að sök, allir hafi skemmt sér konunglega í skemmunni og vetrarríkið fyrir utan hafi bara aukið á stemninguna.
„Kannski var vonda veðrið líka ákveðin blessun, því ef það hefðu komið mikið fleiri þá er ég ekki viss um að skemman hafi ráðið við það. Þetta var orðið svolítið þröngt á tímabili,” segir Einar Óli glaðbeittur að lokum.