Vikublaðið kemur út í dag
Vikublaðið kemur út í dag en blaðið er það síðasta á þessu ári. Í næstu viku kemur út veglegt jólablað Vikublaðsins til áskrifenda sem nemendur í fjölmiðlafræði við HA vinna.
Meðal efnis í blaði vikunnar:
*Karl Eskil Pálsson nær þeim áfanga um áramótin að hafa starfað í þrjátíu ár við fjölmiðlun, allaf með aðsetur á Akureyri og þá með fréttir af landsbyggðunum sem sérgrein. Fyrstu tuttugu árin starfaði hann á fréttastofu Ríkisútvarpsins með aðsetur á Akureyri. Hann hefur undanfarin fimm ár starfað á sjónvarpsstöðinni N4 en áður var hann sjálfstæður fjölmiðlamaður og ritstjóri Vikudags. Vikublaðið settist í vikunni niður með Karli og gerði upp þessa þrjá áratugi.
*Þórhallur Jónsson, formaður skipulagsráðs Akureyrarbæjar og formaður Miðbæjarsamtakanna, segir í samtali við Vikublaðið að stefnt sé að því að hefja fyrstu framkvæmdir á breyttu miðbæjarskipulagi næsta sumar. Eins og greint var frá í síðustu viku hefur Akureyrarbær kynnt tillögur að breytingum á miðbæjarskipulagi. Fjallað er ítarlega um tillögurnar og rætt við Þórhall í blaðinu.
*Baldur Kristjánsson er Húsvíkingur sem er búsettur í Osló í Noregi. Hann vinnur á landslagsarkítektastofu sem hann er meðeigandi í. En í frítíma sínum sinnir hann köllun sinni sem er listin. Myndir hans eru draumkenndar teikningar og notast Baldur aðallega við blýant og þurrpastel. Baldur er kominn með barnabók á teikniborðið og er kominn í samstarf við nýja vefverslun sem heitir Vegglist.is og eru eftirprentanir eftir Baldur á leið á markað innan skamms.
*Óvenju mannmargt hefur verið í Grímsey í haust en nokkuð margir Grímseyingar sem alla jafna dvelja í landi á veturna hafa nú verið í eynni, þar með talið töluvert af börnum og unglingum sem hafa verið í fjar- og heimakennslu eins og víða annars staðar. Karen Nótt Halldórsdóttir, íbúi í Grímsey og verkefnastjóri Glæðum Grímsey, ræðir lífið í Grímsey.
*Sunna Björgvinsdóttir var nýverið valin íshokkíkona ársins 2020 af stjórn Íshokkísambands Íslands. Sunna lék með Skautafélagi Akureyrar um árabil þar til hún flutti til Svíþjóðar og hefur leikið þar undanfarin misseri með Sodertelje SK og IF Troja-Ljungby með góðum árangri. Sunna er Íþróttamaður vikunnar að þessu sinni.
*Þórgunnur Reykjalín Vigfúsdóttir hefur umsjón með Matarhorni vikunnar. Þórgunnur hefur verið skólastjóri Borgarhólsskóla á Húsavík síðan árið 2010 en var áður skólastjóri á Ólafsfirði.
Smelltu hér til að gerast áskrifandi