Kirkjurkórar syngja ekki bara Ave María og prjóna á milli messa
Kór Möðruvallaklausturskirkju í Hörgárdal er skipaður kraftmiklu fólki sem kallar ekki allt ömmu sína og stjórnandi þessa galvaska og síkáta hóps, Sigrún Magna Þórsteinsdóttir, vílar fátt ef nokkuð fyrir sér. Það er því oftar en ekki í þessu samstarfi að ýmsum hugmyndum er hrundið í framkvæmd.
Fyrir ekki svo löngu kviknaði hugmynd um að syngja í kirkjum Skagafjarðar og úr varð heljarinnar verkefni - Sálmafoss í Skagafirði. Einn íslenskur sálmur eða sönglag var tekið upp í hverri kirkju, bæði hljóð og mynd og unnið stutt tónlistarmyndband með myndum af viðkomandi kirkju og umhverfi hennar. Hvert lag var valið sérstaklega með tilliti til hverrar kirkju, hvort þar er hljóðfæri eða ekki, hversu stór hún er, hvernig hljóðvistin er o.s.frv. Lögin og sálmarnir sem valin voru til flutnings eru mjög fjölbreytt. Þau eru samin á mismunandi öldum af bæði konum og körlum, sum þekkt en önnur glæný, sum samin sérstaklega fyrir þennan kór en önnur fyrir annað tilefni.
Söngfólk þarf líka að nærast, sofa og skemmta sér
Skagfirðingar eru ríkir af kirkjum og kílómetrum og því ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur en kirkjurnar í héraðinu eru yfir 20. Verkefnið tók eina helgi frá kl. 09.00 á laugardagsmorgni til 20.30 á sunnudagskvöldi. Ekki náðust allar kirkjurnar í þessu maraþoni - söngfólk þarf jú að nærast, sofa og skemmta sér til að viðhalda sönggleði og jákvæðni sem er skyldubundinn staðalbúnaður í söngferðum, því var kirkjum sem liggja lengst frá megindalnum og þeim sem rúma ekki hópinn sleppt. Úr varð að undirbúinn var söngur í 16 kirkjum, æfðir jafn margir sálmar og haft samband við staðarhaldara á hverjum stað. Svona stórviðburð verður að skrásetja, því voru ráðnir þeir Björgvin myndatökumaður og Trausti hljóðmaður, valdir sérstakir undanfarar til að hreinsa flugur úr gluggum og búa í haginn fyrir kórinn og eins og öllum betri listrænum hópum sæmir voru hafðar með búningatöskur.
Sýndi ótrúlega útsjónasemi enda rýmisgreind með afbrigðum góð
Að morgni 22. mars safnaðist hópurinn saman í rútu við Löngumýri en þar var bækistöð í Skagafjarðardvölinni. Ekið var sem leið lá í Goðdali þar sem stjórnandi, upptökuteymið og undanfarar voru klár, kórnum var stillt upp eftir kúnstarinnar reglum og innan skamms fylltist kirkjan af söng. Að upptöku lokinni voru hafðar hraðar hendur við frágang og nefinu snúið norður, að Mælifelli, Reykjum og Víðimýri. Sungið var vestan Vatna á laugardeginum og endað á Sjávarborg. Atburðarás í kirkjunum var keimlík og slípaðist fljótt, Sigrún Magna stillti kórnum upp og sýndi ótrúlega útsjónasemi enda rýmisgreind hennar með afbrigðum góð - það er ekki á hvers manns færi að koma tæplega 40 manna kór fyrir í Víðimýrarkirkju. Með átta kirkjur að baki voru allir tilbúnir í hátíðarkvöldverð og kvöldvöku á Löngumýri, þar sem Gunnar staðarhaldari kynnti starfsemi og fór með gamanmál og hljómsveit skipuð kórfélögum lék undir fjöldasöng.
Þrátt fyrir slydduhraglanda vöknuðu allir í sólskinsskapi á sunnudag. Kl. 9.00 var haldið að Miklabæ og í rekjunni var vel við hæfi að syngja „Andi þinn er sem úðaregnið“, en einhverjir vildu nú meina að nafnið gæti vísað til manneskju að hnerra... þaðan lá leiðin norður, austan Vatna, í Flugumýri, Hofsstaði, Hóla, Viðvík, Hofsós og Hof, síðasti viðkomustaður var Rípurkirkja í Hegranesi. Heima á Hólum buðu Gísli vígslubiskup og frú Þuríður hópnum í súpu og meðlæti, það vafðist ekki fyrir þeim hjónum að taka á móti tæplega 50 manns og þökkum við höfðinglegar móttökur.
Kirkjur landsins nýtast ekki bara til lesturs guðsorða
Kirkjur landsins nýtast ekki einungis til lesturs guðsorða. Þær eru tónlistarhús, menningararfleifð, samkomuhús og söguheimild sveitarinnar. Í kring um þær hvílir fólkið sem þær byggði og þær sóttu, fólkið sem myndaði samfélagið. Þar bíður okkar sem myndum nútímasamfélagið pláss og við viljum hafa fallegar, lifandi kirkjur í hverri sveit. Hver og ein hefur sérstöðu, einstaka gripi með sögu, handsmíðaðar innréttingar og lykt sem hvergi annarsstaðar finnst og fólk tengist sinni kirkju mjög oft sterkum tilfinningaböndum. Eftir góða helgi í kirkjum Skagafjarðar var andinn var vel nærður og eins og vera ber var raddböndum haldið volgum með spjalli og léttum söng milli atriða. Það var þreyttur en glaður hópur sem hélt heim í Eyjafjörðinn undir kvöld á sunnudegi, að baki tvö góð og rífleg dagsverk í Skagafirði. Framundan eru ýmis söngtækifæri en við erum spenntust fyrir vortónleikum kórsins - Sjáumst á Möðruvöllum í Hörgárdal 1. maí!
Fyrir hönd kórsins: Bryndís Fanný, Erla og Sigrún Magna