Kaffibrennslu Akureyrar lokað

Samkvæmt heimildum sem Vikublaðið telur áreiðanlegar, hefur ákvörðun verið tekin um að hætta rekstri Kaffibrennslunnar á Akureyri. Með þessu lýkur 100 ára sögu kaffibrennslu á Akureyri, í þeirri mynd sem við þekkjum.

Það var árið 1925 sem Stefán Árnason hóf að rista kaffibaunir hér á Akureyri, en um 10 árum síðar bættust fleiri hluthafar í hópinn með Stefáni. Meðal þeirra voru KEA og SÍS sem seinna urðu einu hluthafar Kaffibrennslu Akureyrar og sáu um rekstur hennar, allt þar til SÍS hætti formlegum rekstri og KEA eignaðist félagið að fullu.   Það var svo árið 2000 sem Kaffibrennsla Akureyrar og O. Johnson & Kaaber sameinuðust undir nafni Nýju Kaffibrennslunnar.

Nú styttist í að kaffiilmurinn sem reglulega finnst yfir bænum finnist ei meir.

Vikublaðið hefur ítrekað reynt að fá frekari fréttir af málinu frá núverandi eigendum en boðuð viðbrögð hafa ekki skilað sér.

Nýjast