Ísland fyrir suma, en allir borga
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson birtir á Facebook vegg hans pistil sem vakið hefur mikla athygli, vefurinn fékk góðfúslegt leyfi til þess að birta skrif hans.
Ekki er annað hægt en halda áfram að benda á áframhaldandi sporðreisingu landsins meðan ekkert breytist og dæmin verða augljósari.
Ég þekki margt fólk í núverandi ríkisstjórn. Það fólk þekki ég af góðu einu og tel að ríkisstjórnin sé að ganga að mörgu leyti ágætlega fram, enda sé ekki verið að umbylta mörgu sem áður var komið í farveg, sbr útlendingamálin, sem Guðrún Hafsteinsdóttir hafði komið í góðan farveg í setu sinni í síðustu ríkisstjórn.
Þó er ýmislegt að gerast hjá ríkisstjórninni sem ég óttaðist. Veiðigjöld, álögur á ferðaþjónustu, aukin naflamiðun á höfuðborgarsvæðið og total diss á landsbyggðina, svo ég nú bara sletti. Þetta birtist best í því að í nýrri skipan í stjórnir opinberra hlutafélaga er ekki einn einstaklingur, maður, kona eða hvár, sem kemur utan höfuðborgarsvæðisins, eins og Albertína Friðbjörg Elíasdóttir fór vel yfir nýlega í Speglinum og á eigin FB síðu.
Ég þekki einn málaflokkinn, flugmál, ágætlega, og fæ ekki séð með einfaldri leit að nokkur einasti nýskipaður stjórnarmaður Isavia hafi tæknilega eða fræðilega reynslu af málaflokkinum.
Þetta meina ég ekki sem gagnrýni á þá ágætu einstaklinga, heldur mikið frekar gagnrýni á það kerfi sem viðheldur þá kúltúr “ég á þetta og má þetta”, sem augljóslega sprettur af því að forystumenn þessara ríkisfyrirtækja hafa alið upp fávísa stjórnarmenn og segja þeim hvernig hlutirnir eigi að vera, í stað þess að ríkisstjórnin, fjármálaráðherra f.h. skattgreiðenda, setji stefnuna og segi hvert eigi að fara með starfsemina.
Er tímabært að taka almennilega til athugunar að stærri hluti skattheimtu verði eftir í heimabyggð til uppbyggingar innviða og atvinnutækifæra á heimaslóð, í stað þess að sauðsvartur almúginn og fyrirtæki úti á landi haldi áfram að borga í miðstýrða hít sem ráðstafar megni fjárins í eina miðbæjarstöppu á höfuðborgarsvæðinu?
Það getur aldrei endað öðruvísi en mjög illa.
Annars laufléttur, en held bara áfram að vera leiðinlega byggðapólitískur