Skógræktarfélag Eyjafjarðar -Aldrei í sögunni verið grisjað jafnmikið og í fyrra

„Það er gaman að segja frá því að aldrei í sögu Skógræktarfélag Eyfirðinga hefur verið grisjað meira af skólendum okkar og á liðnu ári. Við setjum markið hátt og stefnum á að tvöfalda það magn nú í ár,“ segir Ingólfur Jóhannsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga. Aðalfundur félagsins var haldinn nýlega þar sem m.a. var farið yfir starfsemi liðins ár og línur lagaðar um verkefni yfirstandandi árs.
„Að venju er mikill fjöldi verkefna fram undan sem gaman verður að takast á við. Við ætlum að gera forverum okkar, þeim sem ruddu brautina hátt undir höfði á árinu og eins eru mörg verkefni á dagskrá sem gera skógana enn betri og skemmtilegri,“ bætir hann við.
Útivist og lýðheilsa er orðin verðmæt skógarafurð sem skipar æ stærri sess í starfsemi félagsins.
Rekstur félagsins á liðnu ári gekk vel. „Útivist og lýðheilsa er orðin verðmæt skógarafurð sem skipar æ stærri sess í starfsemi félagsins. Það er ánægjulegt að sjá hvað sveitarfélögin á starfsvæðinu okkar eru með puttann á púlsinum hvað það varðar og eru tilbúin að leggja okkur lið til að við getum haldið úti fjölbreyttri starfsemi,“ segir Ingi.
Grisjun skóga var til umræðu á aðalfundi, en þar hélt Rúnar Ísleifsson skógarvörður í Vaglaskógi fyrirlestur um grisjun og afsetningu skógarafurða. „Grisjun skóga er afar mikilvæg, það er ekki bara nóg að planta trjám, það þarf líka að huga að því að grisja þegar sá tími kemur. Við erum að fást við lífverur sem verða tuga og hundrað ára gamlar, þær þurfa sitt rými og vaxtarskilyrði til langrar framtíðar til að skapa yndi og verðmætar timburafurðir fyrir komandi kynslóðir,“ segir Ingólfur en fjöldi skógarbænda hlýddi á erindi Rúnars sem er hokinn af reynslu þegar kemur að skógaræktarmálum.
Hér er verið að kurla af kappi í Háfnesstaðareit við Dalvík
Ný viðarvinnsluvél hámarkar virði skógarafurða
Á liðnu ári stóð SE fyrir umfangsmikilli grisjun í sínum skógum og stefnt er að því að tvöfalda það nú í ár. Stór hluti af þeim grisjunarvið sem til féll í fyrra var seldur til Kísilvers PCC á Bakka við Húsavík, en bestu trjábolirnir voru unnir í sögunarmyllu félagsins í Kjarnaskógi þar sem þeim var breytt í borð og planka. Nú nýlega fékk SE nýja Woodmicer viðarvinnsluvél frá Búvís á Akureyri til að hámarka virði skógarafurðanna.
Sigurður Arnarson kynnti á fundinum verkefni sem hann vinnur að um þessar mundir um fyrsta formann félagsins, Jón Rögnvaldsson. Yfirskrift þess verkefnis er „Mikilhæfur leiðtogi á sviði skrúðgarðyrkju og skógræktar.“
„Við tileinkum þetta ár frumkvöðlunum okkar, fólkinu sem gróðursetti tré í Eyjafirði á liðinni öld og hreinlega bjó til skóganna okkar. Við ætlum í sumar að koma fyrir skúlptúrnum „Skógræktandanum“ sem keðjusagalistamaðurinn Jíri Cieslar vann fyrir okkur síðastliðið sumar,“ segir Ingólfur.
Heilmikið var grisjað í skógum SE á liðnu ári og stefnt að því að tvöfalda magnið í ár.
Heimsfræg fjölskylda
Helstu verkefni í Kjarnaskógi auk skóghirðu, lagningu og umhirðu göngustíga tengjast nýju útisvæði við Kjarnakot, uppbyggingu líkamsræktaraðstöðu Kjarna Class sem og á öðrum leikskvæðum í skóginum. „Við viljum ekki segja frá öllu, en læt það flakka hér að það verður reist hús á einu leiksvæðinu og inn í að flytur heimsfræg fjölskylda, þekkt fyrir að vera bæði skrýtin og skemmtilegt,“ upplýsir Ingólfur.
Skógræktarfélag Eyfirðinga hefur umsjón með 11 skógarreitum og verður unnið við viðhald stíga í þeim öllum, bættri aðstöðu og aðgengi, merkingum og viðburðahaldi auk þess sem víðast verður einnig gróðursett eitthvað.