6. nóvember - 13. nóvember - Tbl 45
Við viljum gera enn meira og betur
Íslandsmeistarar KA/Þór hefja i kvöld leik í úrslitakeppni Olís-deildar þegar liðið tekur á móti Haukastúkum i KA heimilinu og hefst leikurinn kl 18:00
Við heyrðum lauslega i Andra Snæ Stefánssyni vegna þessa og almennt um stöðu kvennahandboltans i bænum.
Varst þú alltaf ákveðinn að fara að þjálfa þegar leikmannaferlinum lyki?
Síðustu 6-7 árin sem leikmaður var ég farinn að stefna að meistaraflokksþjálfun eftir ferilinn. Ég byrjaði að þjálfa þegar ég var 16 ára og þjálfaði alltaf yngri flokka á meðan ég var að spila í meistaraflokk. Í mörg ár þjálfaði ég nokkra flokka og það hefur því alltaf verið nóg að gera. Síðasta vetur var ég að spila með KA og þjálfa KA/Þór, bæði í úrvalsdeild og virkilega skemmtileg blanda. Auk þess hef ég ásamt vini mínum Jónatan Magnússyni verið að þjálfa yngstu iðkendurna í félaginu síðustu ár. Ég hef líka þjálfað fótbolta hjá KA þannig að maður hefur þjálfað mikið og lengi. Áður en ég byrjaði að þjálfa stelpurnar í KA/Þór þjálfaði ég U-liðið hjá strákunum í nokkur ár sem er í raun fullorðinsbolti, það var góð reynsla. Þar að auki hef ég verið kennari í rúm 10 ár, virkilega gaman og góð blanda að kenna og þjálfa.
Síðustu árin sem ég spilaði var ég farinn að stefna á meiri þjálfun og saug því í mig allan þann fróðleik sem ég gat frá góðum þjálfurum sem ég hef svo verið heppinn að hafa á ferlinum.
Þið komið inn í tímabilið handhafar allra titla, var það pressa?
Það var vissulega öðruvísi að mæta í Íslandsmótið sem handhafar allra titlanna, tímabilið áður var okkur spáð 5. sætinu. Við höfum lært mikið á þessu tímabili, leikmenn, stjórn og þjálfarateymið. Við fórum í Evrópukeppni o.fl. en ég get ekki sagt að ég sjálfur hafi fundið fyrir mikilli pressu þar sem bæði Fram og Valur var fyrirfram spáð betra gengi en okkur.
Ertu sáttur við þriðja sætið í deildinni? Evrópuævintýri, bikarúrslitahelgi tvisvar í vetur - er ekki of mikið álag? Þetta eru gríðarlega margir leikir!
Ég er þokkalega sáttur við þriðja sætið í deildinni. Við höfum á köflum spilað frábæra leiki og unnið öll liðin í deildinni og enduðum aðeins tveimur stigum frá toppliðinu í erfiðri deild. Auðvitað er maður svekktur með nokkra leiki þar sem við gátum gert betur og töpuðum mikilvægum stigum. Við höfum spilað hrikalega marga leiki þar sem við vorum í tveimur bikarkeppnum, deildarkeppni og Evrópukeppni. Ég ætla ekki að kvarta yfir leikjaálagi, við erum búin að bæta okkur mikið og læra af þessum verkefnum.
Við erum með marga unga leikmenn að bæta sig og markmiðið hjá okkur er að vera virkilega tilbúin í slaginn í úrslitakeppninni, þar ætlum við að selja okkur dýrt.
Það hafa verið 3-5 stelpur úr KA/Þór í A-landsliðinu - sem hefur aldrei gerst áður, hvað veldur því? Kvennahandboltinn hefur tekið mörg skref fram á við undanfarin ár. Er framtíðin björt hjá KA/Þór?
Það er mjög ánægjulegt að við erum með Rut, Unni og Rakel í landsliðinu í núverandi landsliðsverkefni en auk þess eru Aldís og Ásdís búnar að spila landsleiki í vetur. Sunna Guðrún og Anna Þyrí eru í b-landsliðinu og Hildur Lilja er í 18 ára liðinu. Í fyrrasumar voru Anna Marý og Júlía líka í landsliðsverkefnum með 20 ára liðinu, þar hefði Telma Lísa líka verið en hún hefur verið óheppin með meiðsli. Auk þess eigum við fullt af stelpum í enn yngri landsliðum. Þetta sýnir að við erum að vinna metnaðarfullt starf hjá KA/Þór en við viljum gera enn meira og betur.
Yngri leikmenn njóta góðs af því að það eru frábærar fyrirmyndir í eldri leikmönnum liðsins, fyrirliðinn Martha, Rut, Kata V, Arna og Unnur eru allar tilbúnar að hjálpa yngri leikmönnum. Rut Arnfjörð Jónsdóttir er auðvitað frábær leikmaður sem hefur gefið af sér í þjálfun hjá 3. og 4. flokk sem er dýrmætt ásamt öðrum góðum þjálfurum. Það er mikilvægt að okkar yngri leikmenn finni fyrir metnaðarfullu handboltaumhverfi og að þeir þurfi ekki að fara annað til að komast í landslið. Við erum með sterka yngri flokka og framtíðin er klárlega áfram björt hjá okkur.
Við erum með hæfan styrktarþjálfara (Egill) sem vinnur mikla vinnu með mér og Sissa aðstoðarþjálfara. Við erum teymi og það er mikilvægt að leikmenn fái góða alhliða þjálfun. Að baki KA/Þór er öflug stjórn sem leggur mikið á sig fyrir félagið. Umhverfið er sem sagt gott en við erum alltaf að vinna að því að bæta okkur í félaginu. Við þurfum að halda áfram að vinna markvissa vinnu og fá leikmenn til að leggja mikið á sig, það er forsenda árangurs í handbolta.
Er erfiðara að verja titlana en að vinna þá?
Ég hef fengið þessa spurningu oft hvort það sé erfiðara að verja titil en að vinna þá. Ég get alveg sagt það núna að það var öðruvísi að koma inn í mótið sem ríkjandi meistarar. Staðreyndin er sú að við unnum allt á síðasta tímabili, nú eru aðrir titlar í boði á öðru tímabili og við þurfum líka að sækja þá, við eigum ekkert í þeim eins og staðan er núna. Ég horfi á þetta þannig, við unnum í fyrra og það getur enginn tekið af okkur þann árangur. Nú er undir okkur komið að vinna næsta titil, það þarf að sækja hann en enginn á hann eins og er.
Hvernig leggst einvígið við Hauka í þig?
Einvígið við Hauka leggst vel í mig, þetta verður alvöru barátta. Við vitum hvað við stöndum fyrir og ætlum að spila okkar bolta af krafti. Ég hvet alla til að koma í KA-heimilið fimmtudaginn 28. apríl og hvetja okkur í baráttunni, það gefur okkur hrikalega mikið að finna fyrir stuðningi í svona leikjum. KA-heimilið er besta handboltahús landsins þar sem áhorfendur skipta sköpum með nálægð sinni við völlinn, allir á völlinn að sjá góðan handbolta!